Fallryk frá Hálslóni ekki yfir viðmiðunarmörkum um loftgæði

karahnjukarFrá því Kárahnjúkavirkjun tók til starfa hefur ekki mælst fallryk yfir viðmiðunarmörkum um loftgæði sem rekja má til Hálslóns. Mælingar á því hafa staðið yfir undanfarin átta ár.

Niðurstöður fallryksmælinganna eru settar fram í skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands tók saman fyrir Landsvirkjun. Hún er meðal þeirra sem kynntar verða á opnum kynningarfundi Landsvirkjunar og sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á mánudag.

Nýjasta skýrslan um fallrykið inniheldur mælingar fyrir sumarið 2012. Áfok í öllum mælum mældist það sumar undir viðmiðunarmörkum um loftgæði.

Minnst er í Hálslóni í maí en það er orðið fullt í byrjun ágúst í meðal vatnsári, eins og 2012. Mismunur á milli hæstu og lægstu stöðu vatnsyfirborðs er að meðaltali 35 en getur orðið 55 metrar í þurrustu árum. Á meðan vatnsstaðan er lág er hætta á fjúki úr bökkum þess.

Vöktun fallryks úr lóninu er hluti af sjálfbærniverkefnis til að fylgjast með áhrifum Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði. Fjórtán fallryksmælar eru staðsettir í kringum lónið og fjórir í byggð en þeir eru á Brú og Hvanná á Jökuldal, Strönd í gamla Vallahreppi og í Hólmatungu.

Mesta rykið sumarið 2012 kom fram á mæli við Sauðá en hann er innstur allra. Almennt er gengið út frá því að rykið minnki eftir því sem fjær dregur lóninu. Í byggð mældist mest svifryk á mælinum á Brú. Sumarið var óvenju þurrt en fremur hægviðrasamt.

Mælt hefur verið í átta sumur og í fimm sumur eftir að lónið fylltist í fyrsta sinn. Áberandi mest fallryk mældist í byggð sumarið 2006 en lónið var þá ekki orðið til.

Í skýrslunni kemur fram að frá því að mælingar hófust hafi ekki komið sunnan eða suðvestan hvassviðri með þurru veðri á þeim tíma sem mest hætta sé á jarðefnafoki frá bökkum Hálslóns. Þá er tekið fram að jarðefnafok frá hálendingu norðan Vatnajökuls geti átt upptök sín víða.

„Á mælingatímanum hafi ekki mælst fallryk yfir viðmiðunarmörkum um loftgæði sem rekja megi til lónsins," segir í skýrslunni.

Kynningarfundurinn um umhverfisárhrif Kárahnjúkavirkjunar og mótvægisaðgerð verður á Hótel Héraði á þriðjudag og hefst klukkan 15:00.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.