Raforkunotkun fiskiðjuveranna hefur tvöfaldast á tveimur árum

tryggvi haraldsson rarikRaforkunotkun fiskimjölsverksmiðja í Fjarðabyggð hefur tvöfaldast á skömmum tíma en verksmiðjurnar hafa skipt út olíu fyrir rafmagn. Forstjóri RARIK segir þessar breytingar hafa sett pressu á uppbyggingu í raforkukerfinu.

„Það hefur orðið mikil uppbygging hjá uppsjávarfyrirtækjunum í innleiðingu á rafmagni. Staðan er sú að hjá þessum fyrirtækjum eru í dag notuð um 100 megavött og þarf af hafa 53 bæst við á síðustu tveimur árum," sagði Tryggvi Haraldsson, forstjóri RARIK, þegar endurbætt tengivirki Landsnets á Stuðlum í Reyðarfirði var tekið í notkun í síðustu viku.

Síldarvinnslan í Neskaupstað, Eskja á Eskifirði og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hafa allar skipt út olíu fyrir raforku til að knýja bræðslurnar á skömmum tíma. Áætlað er að fjárfesting fyrirtækjanna nemi samanlagt þremur milljörðum króna vegna þessa.

Viðbótin er þó víðar. Megavöttin 53 skiptast þannig að 15 bætast við á Fáskrúðsfirði, 12 á Eskifirði, átta í Neskaupstað, 3 á Vopnafirði og fimmtán á Höfn en þar einnig gangsett ný stöð á vegum Landsnets fyrir helgi. Þá liggur fyrir samningur um sölu á 15 megavöttum til Seyðisfjarðar.

Samhliða tengivirkinu var spenna á línunni frá Stuðlum yfir í Skriðdal hækkuð úr 66 kV í 132 kV. Framkvæmdirnar eiga að þýða að orkuflutningur innan Austurlands sé í góðu lagi en afl vantar inn á svæðið þar sem byggðalínan er fulllestuð.

Tryggvi sagði mikilvægt að afhendingagetan væri næg og kvaðst vonast til að þeim takmörkunum sem eru í flutningskerfinu yrði rutt úr vegi.

„Við þurfum að reyna að standa við bakið á þessum fyrirtækjum og ég held því fram að þetta sé eitt stærsta umhverfismál á síðari árum," sagði Tryggvi og vísaði þar til minnkunar í útblæstri gróðurhúsalofttegunda þegar olíunotkunin minnkar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.