Austfirðingar hrifnir af beinu millilandaflugi frá Egilsstöðum: Fólk vill nýta flugvöllinn

thor ragnarsson 0013 webAustfirðingar hafa verið duglegir að nýta sér þau beinu flug sem boði eru frá Egilsstöðum til erlendra stórborga. Tvær slíkar ferðir eru auglýstar til sölu í þessari viku.

„Austfirðingar hafa verið mjög duglegir við að nýta sér svona beint flug. Ég held að fólk vilji nýta alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum. Það er sorglegt að hafa hann og geta ekki nýtt hann meira," segir Þór Ragnarsson hjá Ferðaskrifstofu Austurlands sem býður upp á ferð til Riga í Lettlandi í lok apríl.

Hann segir það mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuaðila á Austurlandi að fá millilandaflug inn í fjórðunginn.

„Héðan er stutt á Mývatn og Jökulsárlón. Ég held að það skipti ferðamenn ekki máli hvaðan þeir leggja af stað í hringferðina.

Aðalmálið er að finna flugfélag sem er til í að taka þá áhættu að byrja. Ég það hefst þá hugsa ég að þetta hafist."

Auk Riga-ferðar ferðaskrifstofunnar þá hefur VITA auglýst beint flug til Dublin. Þór gleðst yfir því að fleiri aðilar sýni Egilsstaðavellinum áhuga. „Ég vildi að ég gæti getkið báðar vélarnar og fyllt af Austfirðingum. Það kemur."

Hjá Ferðaskrifstofu Austurlands er verið að kanna fleiri möguleika á sambærilegum ferðum. „Okkur hefur lengi langað í fótboltaferð en reynst erfitt að fá leiguvélar. Síðan áformum við að fara til Barcelona næsta haust."

Ferðin til Riga er í boði við Trans-Atlantik sem rekin er frá Akureyri. Vélarnar hefja för í Keflavík en millilenda á Egilsstöðum á leið sinni til Lettlands.

Ferðina ber brátt að en Austfirðingar hafa tíma fram að helgi til að láta vita af áhuga sínum. „Við fáum stuttan fyrirvara, bara tvo daga til að selja í ferðina, en það er þess virði að reyna."

Fyrirtæki á borð við Launafl og Síldarvinnsluna fóru í fyrra með starfsfólk sitt í árshátíðarferðir beint frá Egilsstöðum og var þá meðal annars farið til Riga. Þór segir þá Austfirðinga sem heimsótt hafi borgina hafa komið glaða heim.

„Gamla borgin er 800 ára gömul og þarna blandast saman miðaldabær og nútímaborg. Þarna er margt að skoða og gamli borgarhlutinn hefur mikinn sjarma.

Ég tel þetta líka ódýraferð, 93.000 krónur með flugi og gistingu samanborið við að það kostar okkur 44.000 að fljúga fram og til baka til Reykjavíkur."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.