Sautján norsk loðnuveiðiskip við bryggju á Seyðisfirði - Myndir
Sautján norsk loðnuveiðiskip og eitt íslenskt liggja við bryggju á Seyðisfirði. Fleiri eru væntanleg. Bræla er á miðunum og engin loðna hefur fundist.„Það komu sjö skip síðasta föstudag og síðan hefur verið að bætast við í gær og fyrradag," segir Jóhann Hansson, hafnarstjóri á Seyðisfirði.
Norsku skipin eru sautján en auk þeirra er Bjarni Ólafsson á Seyðisfirði. Þá er vitað af einu til viðbótar á leiðinni inn. „Þau liggja hér undan veðri," segir Jóhann.
Hann segir norsku skipin velja Seyðisfjörð þar sem staðurinn sé vel þekktur í Noregi frá fornu fari og bryggjuplássið mikið og gott.
Að meðaltali eru tíu í áhöfn hvers skips. Áhöfnin á íslenska skipinu hélt til síns heima en Norðmennirnir bíða um borð. „Þeir fara bara á pöbbinn," segir Jóhann léttur í bragði.
Myndir: Ómar Bogason og skjáskot af MarineTraffic.com