Sundraður verkalýður í vondri samningsstöðu: Smákóngar með messíasarkomplexa á háu stigi
Upplausnarástand ríkir á íslenskum vinnumarkaði eftir að nokkur verkafélög felldu kjarasamninga fyrir skemmstu og sundrung innan samtaka launþega. Framkvæmdastjóri AFLs segir launafólk allt eins hafa fellt samningana til að mótmæla vanefndum á kosningaloforðum ríkisstjórnarinnar og af óánægju með samningana.„Það er ljóst að það verður harka á vinnumarkaði fram eftir ári og vandséð að það náist samningar næstu mánuði," skrifar Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs – starfsgreinafélags í opnugrein í nýjasta tölublaði Austurgluggans þar sem hann lýsir þeirri stöðu sem upp er komin á íslenskum vinnumarkaði.
Hann segir að formenn þeirra aðildarfélaga ASÍ sem harðast gengu fram í að fella kjarasamningana muni „ekki mæta velvildar hjá viðsemjendum." Þeir geti þurft að leita að verkfallsvopnunum en óvíst sé að félagsmenn samþykki það.
„Meti félagsmenn þessara félaga stöðu sína til verkfalla veika – verða þessi félög að setjast á hliðarlínu og horfa á af varamannabekknum þar til aðrir hafa rutt brautina og þiggja síðan brauðmolana sem af borðinu hrjóta. Sú bið gæti staðið í fleiri mánuði."
Sverrir virðist helst eiga von á verkföllum í Vestmannaeyjum sem geti orðið hörð en mögulega á Akranesi og Húsavík en forsvarsmenn þeirra félaga hafa verið framarlega meðal þeirra sem gagnrýna kjarasamninga og forustu ASÍ.
Mikil sundrung innan samtaka launþegar bætir ekki samningsstöðuna á meðan viðsemjendur í Samtökum atvinnulífsins gangi í takt. Sverrir segir ASÍ og bandalög háskólamanna og opinberra starfsmanna vart talast við og eftir hörð orðaskipti í fjölmiðlum andi köldu á milli margra formanna aðildarfélaga ASÍ.
„Innan verkalýðshreyfingarinnar eru margir smákóngar og sumir meira að segja með messíasarkomplex á háu stigi. Slíkir foringjar hafa alltaf rétt fyrir sér að eigin mati og efast aldrei um dómgreind sína."
Launafólk vill ekki axla eitt ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika
Sverrir segir að kjarasamningarnir sem undirritaðir voru fyrir jól hafi átt að vera til skamms tíma á meðan unnið yrði að lengri samningum sem skjóta myndu stoðum undir stöðugleika íslensks efnahagslífs.
Hann telur að þeir hafi ekki hafnað út af innihaldi heldur hafi launafólk neitað að taka nær alfarið að sér það hlutverk að bera kostnaðinn af því að koma á efnahagslegum stöðugleika.
„Það var og ljóst á vinnustaðafundum sem ég hélt fyrir AFL Starfsgreinafélag að meðal félagsmanna okkar var það ekki aðeins innihald kjarasamningsins sem vakti gremju – heldur og brostnar vonir um skuldaniðurfellingar, svikin loforð um afnám verðtryggingar, ofurlaun og bónusar í fjármálageira og ýmislegt fleira sem í sjálfu sér er ekki verkalýðshreyfingarinnar um að semja beint um í kjarasamningum. Almenn reiði og gremja fólks gagnvart stjórnvöldum og atvinnulífinu hafði því mögulega veruleg áhrif á niðurstöður atkvæðagreiðslunnar."
Sverrir gagnrýnir sérstaklega aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningunum sem hafi í raun sýnt þeim lítinn áhuga og lítið viljað gera. Eftir að þeir voru undirritaðir hafi síðan skollið á verðhækkanir, sem samningsaðilar höfðu annars stefnt að því að halda aftur af.
Sverrir segir erfiða mánuði framundan. Verðfall á fiskimjöli og dapurlegt útlit á loðnuvertíð veiki íslenskan efnahag. Sveitarstjórnarkosningar nálgist og ríkisstjórnin vilji vart fara inn í þær með vinnumarkað í upplausn. Tímabundnar launahækkanir til að komast í þær skili aðeins keðjuverkunum en engum stöðugleika.