Landeigendur krefjast aukinna varna gegn landbroti út af hærri vatnsstöðu í Lagarfljóti

landsvirkjun 28012014 webMeira vatn rennur í gegnum Fljótsdalsstöð frá Hálslóni en upphaflega var gert ráð fyrir. Þetta leiðir til hærri vatnsstöðu í Lagarfljóti. Bændur við fljótið krefjast þess að Landsvirkjun grípi til aðgerða til að varna landbroti og öðrum skaða sem hlotist getur af hærri vatnsstöðu.

„Þetta er ekkert í lagi. Þetta veldur gífurlegum skaða hér. Þið hafið hag af þessu vatni og verðið að bæta fyrir það," sagði Gunnar Jónsson, bóndi á Egilsstöðum og formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs á opnum fundi sem Landsvirkjun hélt um áhrif reksturs Fljótsdalsstöðvar í síðustu viku.

Í mælingum Landsvirkjunar hefur komið fram að meðalvatnsyfirborð í Lagarfljóti er sjö sentímetrum hærra en ráð var fyrir gert þegar Kárahnjúkavirkjun var gangsett. Meira vatn úr Hálslóni skýrir um þriðjung aukningarinnar en er ekki er ljóst hvaðan afgangurinn af vatninu kemur.

Upphaflega var gert ráð fyrir að um 109 m³/sek rynnu í gegnum aðrennslisgöng Fljótsdalsstöðvar en þau eru 115-20 m³/sek í dag. Göngin bera mest 140 m³/sek. Þetta leiðir til þess að stöðin framleiðir meira rafmagn en áætlað var, um 4900 GWH í stað 4500 GWH.

Aukið rennsli leiðir meðal annars til aukins landbrots. Á nokkrum stöðum hefur verið brugðist við því en á fundinum komu fram raddir landeiganda við fljótið um frekari forvarnir gegn landbroti.

Helgi Jóhannesson, verkefnisstjóri á þróunarsviði Landsvirkjunar, minntist sérstaklega á hólmana við Lagarfljótsbrú, sem eru á náttúruminjaskrá og að tímabæri væri að huga að því hvernig „snyrtilegast væri að verja þá."

Rennslið er um 15% meira en ráð var fyrir gert en Helgi sagði að menn skyldu ekki gera ráð fyrir að það yrði til frambúðar.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, sagði að ekkert í starfsleyfi virkjunarinnar bannaði að fyrirtækið nýtti vatnið til að framleiða aukið rafmagn. Þó yrði eflaust að grípa til aðgerða ef vatnshæðin í fljótinu færi „langt upp fyrir viðmiðunarmörk."

Hann sagði einnig að landrofið væri mest fyrstu ár virkjunarinnar en vísbendingar væru um að rofhraðinn væri að minnka.

Töluvert var spurt út í samspil Kárahnjúkavirkjunar og Lagarfossvirkjunar sem er á forsjá Orkusölunnar og áhrif þess á vatnsstöðuna í fljótinu. Landsvirkjunarmenn sögðu það ekki í þeirra verkahring að fylgjast með vinnu Orkusölunnar en þeir hefðu ekki séð neitt óeðlilegt í sínum tölum um rekstur Lagarfossvirkjunar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.