Farið austur til að sjá þokuna: Safna gögnum um Austfjarðaþokuna fyrir Þokusetur

thokusetur ibuafundur 0005 webHópur áhugamanna hefur tekið sig saman um að stofna Þokusetur sem aðsetur hafi í gamla Samkomuhúsinu á Stöðvarfirði. Þeir telja mikla möguleika á að fá ferðamenn og aðra áhugasama á svæðið til að kynnast Austfjarðaþokuna sem sé einstakt fyrirbrigði.

Þremenningarnir Ívar Ingimarsson, Hafliði Hafliðason og Hilmar Gunnlaugsson kynntu hugmyndir sínar um setrið á íbúafundi sem haldinn var í Samkomuhúsinu á Stöðvarfirði í gær.

Ívar sagði þar að hugmyndin hefði meðal annars kviknað út frá lönguninni til að hefja húsið, sem verulega hefur látið á sjá, aftur til fyrri virðingar.

„Ef okkur tekst að gera upp þetta hús og gera það að bæjarprýði, sem það er ekki í ferðamannabæ í dag, og koma á einu stöðugildi við setrið þá erum við búin að gera helling," sagði Ívar.

Ívar sagði frá því að hann hefði oft hvatt ferðamenn til að fara niður á firði og upplifa þokuna. „Ég er ósammála þeim ferðamönnum sem ekki vilja fara niður á firði því þar sé hætta á þoku. Ég segi við menn að fara til að sjá þokuna. Það er alveg eins hægt að fara austur til að sjá þokuna eins og norður til að upplifa norðurljósin."

Hann benti á að ferðaþjónusta skapi orðið jafn miklar gjaldeyristekjur hérlendis og sjávarútvegurinn. Þá sé eftirspurn eftir afþreyingu á Austfjörðum sem Þokusetrið geti svarað.

Hafliði sagði möguleika í afleiddum störfum sem tengist þokunni, svo sem minjagripum. Möguleikar séu á uppbyggingu gönguleiða í formi þokustíga. Þá sé einnig horft til háskóla- og fræðasamfélagsins en von er á veðurfræðingi austur í næstu viku og rætt er við Veðurstofuna um mögulegt samstarf.

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur undanfarin ár liðkað fyrir notkun gamalla húsa í eigu þess, svo sem á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson lýsti í gær vilja sveitarfélagsins til að styðja á svipaðan hátt við Þokusetrið á Stöðvarfirði í Samkomuhúsinu þar.

Hilmar útskýrði hugmyndir þremenninganna um að reka setrið í sjálfseignarstofnun. Markmiðið sé að byggja setrið upp þannig að það beri sig en til þess þurfi töluvert fjármagn því taka þurfi húsið í gegn. Gangi reksturinn ekki upp verði þannig búið um hnútana að húsið renni aftur til samfélagsins.

Þegar er hafin vinna við að safna myndum, frásögnum og öðrum heimildum um Austfjarðaþokuna en sú vinna fer að miklu leyti fram í gegnum Facebook-síðu hópsins. Gert er ráð fyrir að setrið sjálft opni árið 2015.

„Þetta hefur vakið meiri athygli en við áttum von á og það virðist sem menn hafi gaman af þessari hugmynd. Ef þetta er gert þannig að sómi er að mun fólk örugglega koma hingað og njóta," sagði Hilmar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.