Janne Sig: Flug á ekki að vera lúxusvara þegar fólk þarf á því að halda

janne sigurdsson feb14Miklar fjarlægðir og dýr ferðalög frá stórfjölskyldunni gerir Alcoa Fjarðaáli erfitt að fá til sín starfsfólk og halda í það. Forstjóri fyrirtækisins segir ekki ganga að flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Egilsstaða séu lúxusfyrirbæri því Austfirðingar þurfi á þeim að halda.

„Flugið á ekki að vera lúxusvandamál þegar það snýst um almenningssamgöngur," sagði Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls í framsöguræðu sinni á opnum fundi um flugfargjöld sem haldinn var á Egilsstöðum á föstudag.

„Að fljúga á ekki að vera lúxus þegar maður býr í stóru landi með fáa íbúa þar sem þjónustan er ekki sú sama á milli svæða."

Um helmingur starfsmanna Fjarðaáls flokkast sem aðfluttir og af þeim eru 60% úr Reykjavík. Það sem starfsmennirnir eru óánægðastir með er fjarlægðin frá stórfjölskyldunni. Janne segir starfsmannaveltu vera dýra fyrir fyrirtækið en hún er mun meiri fyrir aðflutta.

„Það sem skiptir starfsmennina máli verður að kostnaði fyrir okkur. Fjarlægðin er ekki 1300 kílómetrar heldur 100.000 krónurnar sem það kostar mig og manninn minn að fljúga fram og til baka."

Til að bregðast við þessu hefur Fjarðaál undanfarin þrjú ár niðurgreitt fargjöld fyrir starfsmenn sína. Sá samningur rennur út í lok febrúar og óvíst er hvort hann verði endurnýjaður. Janne sagði að framhald hans væri það sem starfsmenn spyrðu hana helst út í þegar þeir hittu hana.

Með þessum fargjöldum má áætla að Fjarðaál eyði um 50 milljónum króna í innanlandsflug á ári. Fyrirtækið treystir einnig á flugfrakt til að fá varahluti í hvelli. Að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur er einnig „óraunhæft" vegna alls þess aukakostnaðar sem það myndi bæta við ferðalögin.

Janne, sem er uppalin og bjó um árabil í Danmörku, sagði ekki hægt að bera fargjöld í innanlandsflugi hér saman við það sem tíðkaðist þar, líkt og forstjóri Flugfélags Íslands gerði. Þar væru aðrir samgöngumátar, svo sem lestir í boði.

Þar er þjónustan einnig dreifðari en hérlendis. „Þú þarft almennt ekki að nota flug til að komast til læknis í Skandinavíu."

Janne tók dæmi af aðstæðum sem starfsmenn Fjarðaáls hefðu lent í. Einn flaug börnum sínum reglulega á milli eftir skilnað, annar flutti fermingarveisluna suður til að vera nær gestunum og þriðja dæmið var af konu sem þurfti að sækja krabbameinsmeðferð. „Það er enn erfiðra að fara í krabbameinsmeðferð þegar þú hefur ekki efni á að hafa makann með."

Janne sagðist einnig þekkja flugfargjöldin á eigin skinni. „Það er dýrara að fyrir mig að fljúga til Reykjavíkur heldur en þaðan til Kaupmannahafnar þegar ég heimsæki mömmu."

Hún kvaðst einnig „vorkenna fólkinu fyrir sunnan. Það á ekki sama möguleika á að koma hingað og njóta alls þess frábæra sem hér er í boði."

Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, sagði að lækka þyrfti sérstaka skatta sem leggjast á innanlandsflugið. Þeir eru þó ekki nema 10% af verði hvers farmiða. Janne sagði að meira þyrfti að koma til þannig innanlandsflugið yrði raunhæfari kostur. „Ég er ekki að tala um 10% lækkun."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.