Bilun í Sigöldu varð að rafmagnsleysi á Austurlandi: Raftæki skemmdust í spennusveiflunni

raflinur isadar landsnetBilun við Sigölduvirkjun hratt af stað keðjuverkun sem olli rafmagnsleysi á Austurlandi aðfaranótt laugardags. Raftæki biluðu eftir spennusveiflur og framleiðsla Fjarðaáls er loks að komast á rétt ról en álverið var án rafmagns í rúma tvo tíma.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Landsnet sendi frá sér í dag eftir fyrirspurn Austurfréttar um ástæður rafmagnsleysisins fyrr í morgun. Austurfrétt hefur heyrt í nokkrum einstaklingum sem segja rafmagnstæki sín hafa skemmst eða eyðilagst í miklu flökti sem varð á rafmagninu á laugardagsmorgunn.

Truflanirnar í spenninum við Sigöldu byrjuðu rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöld. Flutningskerfinu var þá skipt upp ú fjórar eyjur til að halda jafnvægi á byggðalínunni og afhending til stóriðju minnkuð. Landsnetsmenn töldu sig hafa komist fyrir bilunina klukkan hálf fimm um nóttina og kerfið væri komið í eðlilegan rekstur.

Kortéri fyrir fimm varð aftur útleysing á spennunni í Sigöldu. Klukkan fimm var kerfinu aftur, í varúðarskyni, skipt upp í tvennt.

Skömmu síðar varð útleysing á vél í Fljótsdalsstöð og við það lækkaði tíðnin í norðaustureyjunni með þeim afleiðingum að útleysing varð hjá Fjarðaáli í Reyðarfirði. Í tilkynningu Landsnets segir að einnig hafi orðið „vart við rafmagnsleysi hjá fleiri notendum á Austur- og Suðausturlandi" og óstöðugleiki verið um tíma á spennu.

Vegna vandamála sem upp komu við enduruppbyggingu flutningskerfisins tók uppkeyrsla skála Fjarðaáls lengri tíma en ella og var skálinn án rafmagns í yfir tvær og hálfa klukkustund.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls, segir að starfsemin þar sé að komast í fyrra horf eftir tveggja og hálfs tíma rafmagnsleysið. Enn séu einhver frávik sem fylgjast þurfi sérstaklega með í kerskálanum.

Hún segir fyrirtækið þakka starfsfólki fyrir að ekki varð stærra tjón. Allir hafi brugðist hárrétt við og starfsmenn svarað kallinu, hvort sem um var að ræða dagvinnufólk eða starfsmenn á frívakt.

Í tilkynningu Landsnets segir að ástæðurnar fyrir bilanaröðinni aðfaranótt laugardags sé fyrst og fremst raktar til þess að byggðalínan sé „rekin á þolmörkum." Þær séu því „áminning um mikilvægi þess að styrkja tengingu meginflutningskerfisins milli norður- og suðurhluta landsins."

Almennum notendum, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna straumleysis eða spennusveiflna, er bent á að vera í sambandi við viðkomandi dreifiveitu, sem á Austurlandi mun vera RARIK.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.