Flugmiðinn kominn langt upp fyrir sársaukamörk þegar menn eyða frekar tveimur dögum í að keyra

flugfelagsfundur 07022014 0031 webAtvinnulíf á Austurlandi þarf á stórbættum samgöngum að halda til að hægt sé að nýta þau tækifæri sem í því bjóðast á næstu árum. Há flugfargjöld eru afar íþyngjandi fyrir félagasamtök, stofnanir og þá ekki síður íbúa í fjórðungnum. Í innanríkisráðuneytinu er skoðað hvort hægt sé að færa stuðning frá millilandaflugi til innanlandsflugs.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi um flugfargjöld sem haldinn var á Egilsstöðum á föstudaginn var.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sem var meðal frummælenda sagði að há fargjöld hefðu áhrif á kjör og lífsgæði íbúa og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

„Tíðni og verðlagning hefur áhrif á okkur öll. Óhindrað flæði fólks er undirstaða atvinnuþróunar, nýsköpunar og framboðs vinnuafls."

Hann benti á að reiknaður þjóðfélagslegur ábati af nýtingu Egilsstaðaflugvallar væru rúmir fimmtíu milljarðar á fjörutíu ára tímabili.

Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar, benti á að flugfarþegum hefði fækkað um 5% síðustu fimm ár þrátt fyrir að íbúum á Austurlandi fjölgaði um 9% á sama tíma. „Flugmiðinn er kominn langt upp fyrir sársaukamörk þegar menn eyða frekar tveimur dögum í að keyra á milli."

Hann taldi upp sóknarfæri í atvinnulífi á Austurlandi sem byggðust meðal annars á olíuleit, norðurslóðasiglingum og ferðamennsku. „Sóknarfæri Íslands í náinni framtíð kalla á stórbættar flugsamgöngur við Austurland og Egilsstaðaflugvöll, jafnt í millilanda- sem innanlandsflugi."

Kristín Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sagði að flugfargjöld stofnunarinnar hefðu hækkað verulega á síðustu árum. „Þau hafa hækkað um 38,8% á tveimur árum. Það kostar okkur tæpar ellefu milljónir á ári að fljúga á milli starfsfólki og sérfræðingum sem við þurfum að fá til okkar þótt við séum í hæsta afslætti."

Jósef Auðunn Friðriksson, ritari Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands benti á að ferðakostnaður sambandsins og aðildarfélagsins á síðasta ári hefði numið tæpum 43 milljónum króna.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, leit stutt inn á fundinn. Hún sagði frá því í ráðuneytinu væri hafin vinna að skoða kostnaðarþætti innanlandsflugs og kostnaðarskiptingu innan ISAVIA.

„Við erum að skoða hvort hægt sé að færa stuðning frá millilandaflugi yfir í innanlandsflug. Þau lögfræðiálit sem við höfum fengið til þessa sögðu að það væri ekki hægt miðað við reglur EES en Norðmenn hafa fundið leið og við höfum fengið stuðning þaðan," sagði hún og bætti við að starfshópur til að fylgja málinu eftir yrði skipaður fljótlega.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist vera tilbúin að leggja sitt af mörkum við að minna Hönnu Birnu á. Líneik, sem tók sæti á þingi í vor, sagði að í nýju starfi hefði hún fengið flugkort til að komast á milli vinnu og heimilis. Hálfur mánuður hefði verið búinn þegar heimild fyrsta mánaðarins á kortinu var uppurin.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.