Strandaglópar eiga rétt á mat og gistingu ef flug frestast til næsta dags
Farþegar sem þurfa að bíða til næsta dags þegar flug er fellt niður vegna veðurs eiga rétt á hressingu og hótelgistingu. Hjá Flugfélagi Íslands voru felldar niður rúmlega 150 ferðir í nóvember vegna veðurs.Þetta er meðal þess sem fram kemur í reglum um réttindi flugfarþega sem innleidd var hérlendis árið 2012 en byggir á evrópskum lögum.
„Í stuttu máli á farþegi sem verður fyrir því að flugi hans er aflýst rétt á að fá aðstoð: að velja milli þess að fá endurgreiddan farmiðann eða annað flug," segir Ómar Sveinsson, fagstjóri neytendamála hjá Samgöngustofu í svari við fyrirspurn Austurfréttar.
Þá eiga þeir rétt á þjónustu: hressingu, mat og gistingu „eftir því sem við á."
„Heimamenn eiga aldrei rétt á gistingu en þeir sem verða fyrir réttlætanlegum kostnaði eiga möguleika á að fá hann endurgreiddan. Ferðir til og frá flugvelli skal endurgreiða, ef farþegi er kominn á flugvöllinn þegar fluginu er aflýst."
Í reglunum segir að sé „flugleið farþega breytt þannig að áætlaður brottfarartími nýja flugsins er a.m.k. einum degi eftir áætlaða brottför flugsins sem var aflýst skal flugrekandi einnig bjóða hótelgistingu og flutning á milli flugvallar og gistiaðstöðu."
Einnig eiga farþegar að fá upplýsingar um réttindi sín og eiga mögulega rétt á bótum ef aflýsingin er ekki talin vera vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Á fundi um flugfargjöld á föstudag sagði Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélagsins, frá því að 154 ferðir hefðu verið felldar niður hjá félaginu í nóvember vegna veðurs og hefðu ekki verið fleiri frá síðasta eldgosi.
„Það tapar enginn meira á því en við því farþegar eiga þá rétt á bótum," sagði Árni.