Stillt upp hjá Framsókn á Fljótsdalshéraði: Stefán Bogi gefur kost á sér til að leiða listann áfram
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. feb 2014 13:29 • Uppfært 18. feb 2014 11:29
Uppstillinganefnd mun raða á lista Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Forseti bæjarstjórnar, Stefán Bogi Sveinsson, gefur kost á sér til að leiða listann áfram en Eyrún Arnardóttir ætlar ekki að halda áfram.
„Nei, ég ætla ekki að halda áfram. Þetta tekur of mikinn tíma þegar maður er í fullri vinnu og með tvö börn," sagði Eyrún í samtali við Austurfrétt.
Stefán Bogi Sveinsson, sem fór fyrir listanum í síðustu kosningum, gefur kost á sér til að leiða listann áfram. Þriðji bæjarfulltrúinn, Páll Sigvaldason, sagðist í samtali við Austurfrétt ekki hafa gert endanlega upp hug sinn.
Þorvaldur Hjarðar, formaður Framsóknarfélags Héraðs og Borgarfjarðar, staðfesti við Austurfrétt að uppstillinganefnd hefði hafið störf. Hann kvaðst ánægður með störf núverandi bæjarfulltrúa. „Þeir hafa staðið sig vel því þeir tóku nánast við þrotabúi."