Rúmur milljarður í veltu af ferðaþjónustu á Húsavík: Ferðaþjónustan er byggðaþróunarverkefni

einar gislason husavikTekjur af ferðamönnum á Húsavík eru vel yfir einn milljarð á hverju ári. Tekist hefur að markaðssetja staðinn sem hvalahöfuðborg Evrópu. Á Höfn í Hornafirði er farið að skorta íbúðarhúsnæði því svo mörgum íbúðum hefur verið breytt í gististaði.

Þetta kom fram í kynningum á stofnfundi samtaka um Þjónustusamfélagið Fljótsdalshérað á Hótel Héraði í morgun.

Einar Gíslason, forstöðumaður Húsavíkurstofu, kynnti þar vinnu þjónustuaðila við Skjálfanda og Árdís Erna Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls, kynnti samstarf í ferðaþjónustu-, matvæla og menningarklasanum í sveitarfélaginu Hornafirði.

Einar sagði að könnun hefði sýnt að ferðamenn hefðu eytt 1,2 milljarði króna á Húsavík árið 2010. Sú upphæð hefur vart lækkað því gistinóttum á staðnum hefur fjölgað um 30% á nokkrum árum.

Húsavíkurstofa sér um kynningarmál svæðisins sem byggist meðal annars á Demantshringnum, náttúrunni á Skjálfanda og því að Húsavík sé hvalahöfuðborg Evrópu. Þá heyra viðburðir á borð við Mærudaga undir stofuna.

Fyrir hönd ferðaþjónustuaðila eru sóttar ferðaráðstefnur, haldið úti í vefnum www.visithusavik.is og séð um sameiginlega ímyndarsköpun. Einar sagði sífellt í endurskoðun hvernig þeim takmörkuðu fjármunum sé ráðið. Sífellt minna sé varið í prentmiðla.

„Við kaupum litla sem enga umfjöllun orðið. Þú borgar kannski hundrað þúsund kall fyrir heilsíðu í Icelandic Times en það er erfitt að mæla hverju hún skilar. Þeir sjálfir hafa engin mælitæki önnur en hvers mörg blöð eru prentuð og dreift hingað og þangað," sagði Einar og bætti við að marklaust væri að kaupa umfjöllun nema að geta vísað í vefsíðu með frekari upplýsingum.

Stofan aflar fjár með félagsgjöldum, styrk frá sveitarfélaginu og rekstri tjaldsvæðis staðarins. Það er leigt af sveitarfélaginu Norðurþung og núllar sú leiga nokkurn vegin út styrkinn.

Upplýsingamiðstöðin á Húsavík er staðsett í Hvalasafninu og þannig næst fram samnýting á starfsfólki. Hann bætti þó við að sífellt þyrfti að halda fólki á tánum og kvaðst finna fyrir vaxandi óþolinmæði og skilningsleysi íbúa þar sem vinnan væri að miklu leyti ósýnileg.

Uppbygging og hlutverk klasans sem kallast Ríki Vatnajökuls er á margan þátt sambærilegt. „Markmiðið er að skapa öflugri ferðaþjónustu," sagði Árdís Erna.

„Ég lít á ferðaþjónustuna sem byggðaþróunarverkefni og það er mikilvægt að byggja hana upp íbúum til hagsbóta."

Hún sagði frá því að ferðaþjónustan hefði vaxið afar hratt á Hornafjarðarsvæðinu og ákveðnir vaxtarverkir gert vart við sig. Erfitt hefði til dæmis reynst að fá íbúðahúsnæði því fjölda íbúða hefði verið breytt í gistirými.

ardis erla halldorsdottir hofn

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.