Einn mesti snjór sem við höfum fengið: Fjögurra metra hár snjóskafl í munna Oddsskarðsganga

oddsskard 1 22022014 mokstur aldisSnjómokstursmenn hafa verið á ferðinni í rúma níu tíma við að ryðja leiðina á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Vegfarendur segja ótrúlegt um að lítast í vetrarríkinu þar sem allt sé á kafi í snjó.

„Þessi snjór er með því mesta sem við höfum fengið. Við erum búnir að fara í gegnum þriggja metra háa skafla," segir Einar Sveinn Sveinsson, snjómokstursmaður.

Byrjað var að moka klukkan fimm í morgun. Þegar Austurfrétt ræddi við Einar Svein á þriðja tímanum í dag var mokstursflokkurinn staddur við skíðaskálann Eskifjarðarmegin. „Þetta hefur gengið mjög rólega."

Flokkurinn mokar sig áfram niður þeim megin en ekki er ljóst enn hversu mikill snjór er á leiðinni. Hann virðist þó nokkur en skyggnið er lítið.

Stærsti skaflinn sem á vegi hópsins hefur orðið var í munna Oddsskarðsganganna. Skafið hafði inn í og meðfram munnanum og þar var kominn um fjögurra metra hár skafl. „Hann er sá langhæsti."

Einar Sveinn segir þungan snjó neðar í fjallinu sem erfitt sé að blása. Léttari snjór sé ofar sem fokið geti til og fyllt í aftur.

Austurfrétt ræddi við Aldísi Stefánsdóttur sem var á eftir snjómokstursflokknum en hún var á leiðinni í Egilsstaði að sækja dóttur sína í flug. Hún segir aðstæður ótrúlegar.

„Það var ótrúlegt að sjá þetta," segir hún um aðstæðurnar við gangnamunnann. „Það er allt á kafi."

Myndir: Aldís Stefánsdóttir

oddsskardsgong 22022014 aldis stef

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.