Mokstursdögum fækkað á Vopnafjarðarheiði: Þetta er bullandi vont

thorsteinn steinsson apr13 skorinnVopnfirðingar eru svekktir og undrandi á þeirri ákvörðun Vegagerðarinnar að fækka mokstursdögum á Vopnafjarðarheiði úr sex í tvo. Vegagerðin hafnar því að til aðgerðanna sé gripið í sparnaðarskyni. Þetta séu neyðaraðgerðir út af ástandi á vegunum.

„Auðvitað er þetta bullandi vont. Þetta hefur mikil áhrif bæði á fyrirtæki og einstaklinga," segir Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri á Vopnafirði.

„Það er gríðarlegt öryggisatriði að þessir vegir séu mokaðir. Það er mikið um að fólk héðan þurfi að leita annað eftir ýmissi þjónustu, meðal annars læknisþjónustu."

Hann lýsir fækkun daganna sem „grófri aðgerð" og segir að haft hafi verið samband við Vegagerðina og stjórnvöld vegamála í þeirri von að hægt verði að lágmarka þjónustuskerðinguna.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar frá í morgun er ítrekað að ákvörðunin snúist ekki um sparnað heldur að með sífellum mokstri geti hlaðist upp smám saman upp hærri snjógöng sem að lokum verði ómögulegt að vinna í.

„Vegagerðin stendur því frammi fyrir því að gera þessar ráðstafanir nú eða að þurfa að lenda í þeirri stöðu að ráða ekki við að halda leiðinni opinni."

Jafnframt sé vonast að til að ástandið „vari sem styst, vonandi aðeins í 1-2 vikur."

Þorsteinn segir Vopnfirðinga ekki hafa farið varhluta af snjóþungum vetri frekar en aðra Austfirðinga. Þótt þeir komist norður fyrir meðfram ströndinni rýfur lokun á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði samskiptin við Austurland.

„Við erum líka hluti af Austurlandi og eigum mikil samskipti við aðra Austfirðinga. Þótt menn komist út úr sveitarfélaginu meðfram ströndinni er ærið langt að keyra þá leið og hringinn í kringum landlið til að komast í Egilsstaði."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.