HSA: Færri mokstursdagar kunna að hafa áhrif á sjúkraflutninga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. mar 2014 14:26 • Uppfært 04. mar 2014 15:51
Fækkun mokstursdagar á Möðrudalsöræfum kunna að hafa áhrif á flutninga sjúklinga á milli Akureyrar og Neskaupstaðar. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands telur tímabundna minni þjónustu ekki ógna öryggi sjúklinga.
„Við teljum þetta ekki ógna öryggi sjúklinga þar sem flestir bráðaflutningar, sem ekki fara á umdæmissjúkrahúsið okkar, fara með sjúkraflugi til Akureyrar eða Reykjavíkur," segir Kristín Albertsdóttir, forstjóri HSA, aðspurð um hvaða áhrif aðgerðir Vegagerðarinnar hafi á stofnunina.
Vegagerðin ákvað vegna aðstæðna að fækka mokstursdögum á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði tímabundið úr sex í tvo.
Kristín segir að hjá HSA hafi menn reynt að taka ákvörðuninni af ró þótt hún kunni að hafa einhver áhrif á sjúkraflutninga.
„Þetta getur í einhverjum tilvikum þýtt fleiri sjúkraflug og í öðrum tilvikum frestun á flutningi sjúklinga milli stofnana, þ.e. Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað."