Dæmdur í fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir ölvunarakstur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. mar 2014 11:39 • Uppfært 11. mar 2014 11:59
Karlmaður á fertugsaldri var nýverið dæmdur í Héraðsdómi Austurlands í 45 daga fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir að keyra undir áhrifum áfengis og kannabis.
Maðurinn tók haustið 2012 bifreið í heimildarleysi inni á bæ á Seyðisfirði. Hann ók henni út að Hánefsstöðum þar sem hann festi hana og olli á henni talsverðum skemmdum.
Maðurinn játaði brott sitt greiðlega, lýsti yfir iðrun og greiddi það fjárhagslega tjón sem hann olli.
Hann fékk þrátt fyrir það óskilorðsbundinn fangelsisdóm og ævilanga sviptingu ökuréttinda þar sem hann hafði tvisvar áður gerst sekur um akstur undir áhrifum áfengis. Hann var að auki dæmdur til að greiða rúmar 130.000 krónur í sakarkostnað.