Ekki lánað til Seyðisfjarðar eftir fréttir um flutning Norrænu?

norronaSvo virðist sem fregnir af hugsanlegum flutningi Norrænu frá Seyðisfirði hafi orðið til þess að lánastofnanir vilji ekki lána fyrir verkefnum í sveitarfélaginu. Slíkt mun hafa tafið fyrir uppbyggingu gistirýmis í bænum.

Þetta kemur fram í grein Þorvaldar Jóhannssonar, fyrrverandi bæjarstjóra, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir hann að á Seyðisfirði, líkt og víða annars staðar, hafi menn hugað að stækkun gistirýmis til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna á Íslandi.

Fréttirnar af því að stjórn útgerðarfélags Norrænu óskaði eftir viðræðum við Fjarðabyggð um hvort hægt væri að flytja heimahöfn ferjunnar hérlendis þangað hafi hins vegar sett strik í reikninginn.

„Í samtölum við þrjá aðila, tvo eigendur ferðaþjónustufyrirtækja og einstakling, sem standa í framkvæmdum, staðfestu þeir að lánastofnanir sem þeir höfðu verið í viðræðum við um fyrirgreiðslu við verkefni sín hefðu, eftir þessa frétt, dregið hana til baka. Lánafyrirgreiðsla er ekki lengur til staðar," skrifar Þorvaldur.

Hann segir enn fremur að fréttin hafi ekki bara haft áhrif á atvinnulífið. „Fleiri íbúar hafa sömu sögu að segja varðandi t.d. fyrirhuguð íbúðakaup. Ástæða sem nefnd er: Óvissuástand á Seyðisfirði framundan, sem m.a. þessi „frétt" skapar."

Í greininni lýsir Þorvaldur yfir undrun sinni á því hversu mikil áhrif orðrómur geti haft á lánshæfni og minnir á að Norræna sé með samning til næstu ára um hafnaraðstöðuna á Seyðisfirði. „Er nema von að spurt sé: Getur ein „frétt" rústað lánstrausti íbúa í heilu byggðarlagi?"

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.