Vill skoða hvort bæjarfulltrúar minnihlutans hafi brotið siðareglur: „Vitum ekki hvernig við lentum í þessu"

seydisfjordurDaníel Björnsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seyðisfirði, óskaði á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi eftir að skoðað yrði hvort fulltrúar minnihlutans hefðu brotið siðareglur kjörinna fulltrúa. Fulltrúar minnihlutans segjast ekki skilja hvernig þeir hafi gert það og segja að þeim ásökunum sem á þá eru bornar verði ekki tekið þegjandi.

„Ég vil meina að það hafi ekki legið öll gögn fyrir að taka upplýsta ákvörðun," segir Daníel í samtali við Austurfrétt.

Á fundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar í gær lagði hann fram bókun þar sem hann óskar þess að forseti bæjarstjórnar skoði bókun bæjarfulltrúa minnihlutans, Önnu Guðbjargar Sigmarsdóttur, Samfylkingu og Þórunnar Hrundar Óladóttur, Vinstri grænum, af fundi bæjarráðs 19. febrúar, með hliðsjón af því hvort þær farið á svig við siðareglur bæjarstjórnar.

Á þeim fundi var tekinn fyrir úrskurður innanríkisráðuneytisins sem taldi að álagning sveitarfélagsins á Lónsleiru ehf. vegna fasteigna að Lónsleiru 7 og 9 í fyrra hefði verið ólögmæt. Anna Guðbjörg og Þórunn lögðu þar fram bókun og vildu að bæjarstjórnin afturkallaði gatnagerðargjöldin.

Í bókun þeirra segir enn fremur að „vinnubrögð bæjaryfirvalda í málefnum Lónsleiru ehf. séu ekki til þess fallin að laða að fyrirtæki og hvetja til nýframkvæmda."

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, féllst ekki á að endurskoða gjöldin strax þar sem haft hafði verið samband við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir að úrskurðurinn barst. Þaðan hefði borist ósk um að beðið yrði með að afturkalla gatnagerðargjöldin meðan lögfræðingar sambandsins skoðuðu það því það gæti verið fordæmisgefandi fyrir fleiri sveitarfélög.

Töldu meirihlutann vera að teygja lopann

„Við töldum að þessum úrskurði bæri að hlíta," segir Þórunn og vísar til niðurstöðu innanríkisráðuneytisins.

Hún segir meirihlutann hafa sent niðurstöðuna áfram til sambandsins án samráðs við minnihlutann. „Okkur fannst engin ástæða til að teygja lopann lengur í þessu máli. Við töldum okkur ekki bundnar af því að þurfa að bíða eftir að lögfræðingar sambandsins færu yfir þetta og ekkert sem bannaði okkur að koma fram með okkar eigin skoðun."

Í fundargerð bæjarráðsins frá 19. febrúar segir að bæjarstjórinn, Vilhjálmur Jónsson, hafi bent á að Samband íslenskra sveitarfélaga hefði „unnið að yfirferð úrskurðarins og áliti á áhrifum hans varðandi gjaldskrár sveitarfélaga og viðbrögðum við niðurstöðu hans."

Ekki náðist í Vilhjálm við vinnslu fréttarinnar en Þórunn kannast ekki við að hafa séð erindi frá lögfræðingum sambandsins sem staðfesti þetta um þetta en útilokaði ekki að það væri til.

Álitið lá hins vegar fyrir á fundi bæjarráðs í 5. mars og þar var samþykkt að afturkalla gatnagerðargjaldið fyrir árið 2013.

Lögðu fram bókunina áður en öll gögn lágu fyrir

Málið var síðan tekið upp í bæjarstjórn í gær þegar fyrrnefndar fundargerðir bæjarráðs komu þangað til afgreiðslu. Við þær umræður lagði Daníel fram bókun þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að bókun Önnu og Þórunnar úr bæjarráðinu bæri ekki merki um vandaða stjórnsýslu og að hún gefi tilefni til að „þess að minna sérstaklega á siðareglur kjörinna fulltrúa í Seyðisfjarðarkaupstað þar sem bæjarfulltrúar eiga að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í hvívetna."

Í annarri grein siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Seyðisfjarðarkaupstað segir að þeir hafi ávallt „að leiðarljósi grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu, m.a. um gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku."

Í samtali við Austurfrétt í kvöld lagði Daníel áherslu hann hefði lagt fram sína bókun þar sem Anna og Þórunn hefðu bókað í bæjarráðinu þrátt fyrir að hafa upplýsingar um ósk sambandsins um að beðið yrði með aðgerðir.

Aðspurður hvort hann teldi nauðsynlegt að óska eftir að siðareglurnar yrðu skoðaðar, þrátt fyrir málið hefði verið afgreitt svaraði Daníel: „Já, ég tel það, því þær lögðu fram bókun á þeim tímapunkti þar sem ekki lágu öll gögn fyrir."

„Við erum orðlausar"

Fulltrúar minnihlutans funduðu í kvöld um viðbrögð við bókuninni. „Við erum orðlausar, slegnar. Við vitum ekki hvernig við lentum í þessu," sagði Þórunn í samtali við Austurfrétt að honum loknum.

„Við erum að kanna okkar stöðu og hvort það sé virkilega hægt að finna þann flöt að við höfum brotið siðareglurnar. Við áttum okkur engan vegin á hvernig við eigum að hafa gert það.

Við ætlum ekki að láta þetta óátalið. Þetta eru það þungar ásakanir og sitjum ekki undir þeim þegjandi og hljóðalaust."

Eftir að bókun Daníels var lögð fram í gær var tekið fundarhlé að beiðni Þórunnar og Önnu. Að því loknu lögðu þær fram bókun þar sem þær lýsa því til að þær áskilji sér til að svara bókun Daníels formlega síðar.

Leitað til sambandsins eftir aðstoð

Í samtali við Austurfrétt í kvöld staðfesti Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar og samflokkskona Daníels, að hún myndi verða við ósk hans um að skoða hvort bæjarfulltrúarnir hafi brotið siðareglurnar.

„Ég mun skoða þetta og skila einhverju af mér um þetta. Það er óskað eftir því," sagði Arnbjörg en hún sagðist mundu snúa sér til Sambands íslenskra sveitarfélaga með aðstoð.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem reynir á siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Seyðisfjarðarkaupstað en þær voru samþykktar í bæjarstjórn í maí í fyrra.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.