Skip to main content

„Árangur fyrirtækisins er tengdur beint í viðkvæmasta líffærið, veskið okkar"

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. mar 2014 13:44Uppfært 19. mar 2014 13:45

agnes holm gunnarsdottir alcoaRík áhersla er lögð á þátttöku starfsfólks í mótun og framfylgd gæðastarfs hjá Alcoa Fjarðaáli. Það er í sífelldri endurskoðun til að geta mætt þörfum viðskiptavina um víða veröld.


„Gæðastjórnun snýst um að við séum að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina um allan heim á hverjum degi og séum ekki að gera eitthvað anna en við segjumst vera að gera," segir Agnes Hólm Gunnarsdóttir, sem haft hefur umsjón með gæðamálum fyrirtækisins.

Hún var meðal frummælenda á málþingi um gæðastjórnun sem Austurbrú hélt fyrir skemmstu. Ýmsir gæðastaðlar eru í gildi á mismunandi sviðum fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur hlotið ISO9001 vottunina auk þess sem unnið er eftir innragæðakerfi Alcoa, ABS.

Öll þessi gæðakerfi hafa áhrif á daglega starfsemi Fjarðaáls. „Við setjum okkur markmið í samræmi við þær kröfur og væntingar sem við þurfum að uppfylla og vinnum að þeim á staðlaðan hátt. Ef eitthvað gengur ekki upp þá skoðum við ferlið og að því erum við á hverjum degi."

Í því felst meðal annars að skrá allar neikvæðar athugasemdir frá viðskiptavinum í gagnagrunn. Síðan er farið að rannsaka hvað hafi verið úrskeiðis. Áherslan er á að afhenda viðskiptavinum góða vöru á réttum tíma.

„Mikilvægast af öllu er að selja álið okkar. Þetta snýst fyrst og fremst um að vera í viðskiptum og við höfum góða ímynd og traust í Evrópu."

Þá eiga stakir viðskiptavinir það til að kanna með eigin augum hvort unnið sé eftir gæðastöðlunum. Agnes sagði einhverja ítarlegustu úttektina hafa verið frá Ferrari-bílaframleiðandanum en Fjarðaál framleiðir ál sem notað er í felgur. „Þeir sendu fólk hingað sem eyddi dögum í að spyrja starfsmennina út í vinnuna."

Gæðastjórnin snertir starfsmenn Fjarðaáls á ýmsan hátt. Hún snýr einnig að starfsánægju og launabónusar tengjast umgengni, slysadögum og öðru slíku. „Árangur fyrirtækisins er tengdur beint í viðkvæmasta líffærið, veskið okkar."

Lágt álverð á mörkuðum hefur haft talsverð áhrif á Fjarðaál. Til að bregðast við því var leitað til starfsmanna eftir hugmyndum til að spara kostnað. „Það þarf að vera með góða umbótamenningu og virkja alla til að bæta fyrirtækið."