Ferðamenn virða ekki lokunarslár: Stórhríð spáð í kvöld

brimrun4 wbÞrjár björgunarsveitir voru í gærkvöldi í tvo og hálfan tíma að koma sjúklingi frá Seyðisfirði til Norðfjarðar og björgunarsveitin Jökull bjargaði þrettán bílum af Háreksstaðaleið. Færð spillist fljótt við þær aðstæður sem eru á austfirskum fjallvegum en eins eru brögð að því að ferðalangar virði ekki lokanir á vegum.

„Það voru að minnsta kosti tveir bílar í gær sem fóru framhjá slánni eftir að björgunarsveitarbíllinn var lagður á heiðna og lentu síðan í vandræðum," segir Guðjón Már Jónsson í svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi.

Ferðalöngum var um miðjan dag í gær bjargað úr fimm bílum á Fjarðarheiði. Í gærkvöldi komu síðan þrjár björgunarsveitir, Ísólfur á Seyðisfirði, Brimrún á Eskifirði og Gerpir í Neskaupstað að því að flytja sjúkling frá Seyðisfirði til Norðfjarðar. Plógur frá Vegagerðinni fór einnig upp heiðina á móti björgunarsveitinni en bílar sem skildir höfðu verið eftir töfðu ferð hans.

„Ferðin gekk samkvæmt áætlun og menn voru tvo og hálfan tíma á leiðinni. Það má segja að þrjár björgunarsveitir með ellefu manns hafi tekið þátt í aðgerðinni auk þess sem Vegagerðin veitti okkur mjög góða þjónustu," segir Guðjón.

Menn frá Vegagerðinni og björgunarsveitinni Jökli stóðu einnig í ströngu á Háreksstaðaleið þar sem þrettán bílum var hjálpað. „Það gekk vel því þeir voru ekki langt uppi á heiðinni."

Guðjón segir tvennt valda því að svona jafn margir sitji fastir og raun ber vitni. Annars vegar að skjótt skipist veður í lofti og vegir geti orðið ófærir á skömmum tíma. Hins vegar að menn fari af stað án þess að hugsa út í hvað þeir séu að fara og virði jafnvel ekki lokanir, eins og áður kom fram.

„Ástandið á fjallvegum er þannig að erfitt er að halda þeim opnum. Það er stutt frá því að ástandið fer að versna þar til það er orðið vonlaust."

Spáð er stórhríð á Austurlandi í kvöld með stormi í kvöld og nótt en slyddu eða bleytusnjó á láglendi. Lokað er á Fjöllum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.