Skip to main content

Harma stefnu Fjarðabyggðar í málum Norrænu: Óttast ekki að missa ferjuna úr fjórðungnum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. mar 2014 15:56Uppfært 27. mar 2014 15:59

maggy gaujaBæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar harmar vinnu Fjarðabyggðar í málefnum ferjunnar Norrænu. Formaður bæjarráðs segist ekki óttast að Smyril-Line flytji starfsemi sína úr fjórðungnum ef ekki takast samningar við Fjarðabyggð.


„Bæjarráð Seyðisfjarðar harmar þá stefnu sem hafnarstjórn og bæjarráð Fjarðabyggður hafa tekið í málinu. [...] Sérstaklega með hliðsjón af margítrekuðum ályktunum aðalfunda SSA um fyrirkomulag og uppbyggingu samgöngumannvirkja á Austurlandi," segir í bókun sem bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi.

Bókun er andsvar við ákvörðun hafnarstjórnar og bæjarráðs Fjarðabyggðar að halda áfram viðræðum við forsvarsmenn Smyril-Line, sem gerir út Norrænu, um að ferjan sigli til Eskifjarðar í stað Seyðisfjarðar eins og hún gerir í dag.

Í samtali við Austurfrétt í dag vísaði Margrét Guðjónsdóttir, formaður bæjarráð í samþykktir frá þingum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þar sem talað er að mikilvægt sé að nýta uppbyggingu ferjuhafnarinnar á Seyðisfirði og markaðssetja hana sem helstu ferju- og skemmtiferðaskipahöfn Austurlands.

Í bókuninni er bæjarstjóra falið að óska eftir að stjórn SSA fundi á Seyðisfirði sem fyrst til að fara yfir málið.

Aðspurð sagðist Margrét ekki telja líkur á að Smyril-Line myndi velja sér áfangastað utan Austurlands ef Fjarðabyggð hefði ekki tekið undir óskir fyrirtækisins um viðræður.

„Mér finnst það afar ólíklegt. Ég held að það sé engin hætta á að Norræna sigli til annars staðar en Austurlands."

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur síðan í haust óskað eftir viðræðum við forsvarsmenn Smyril-Line um málið. Margrét staðfest að þeir hefðu ekki orðið við óskum um formlegan fund.