50 störf á Djúpavogi í uppnámi við brotthvarf Vísis: Þýðir ekki annað en standa í lappirnar og halda áfram

visir djupi mk2 webVísir hf. áformar að flytja alla fiskvinnslu sína í áföngum til Grindavíkur sem þýðir að vinnsla fyrirtækisins á Djúpavogi leggst af. Þar starfa um fimmtíu starfsmenn og hefur starfsemi fyrirtækisins verið hryggjarstykkið í atvinnulífi staðarins undanfarin ár. Sveitarstjórinn segir þó fleiri möguleika í staðinn og ákvörðunin nú sé tímabundið bakslag.

„Vísir hefur verið hryggjarstykkið í atvinnulífinu um árabil og það er áhyggjuefni þegar svona víðtækar skipulagsbreytingar eru boðaðar," segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

Engum hefur þó verið sagt upp enn eftir því sem næst verður komist þannig að útlit er fyrir að vinnslan verði óbreytt næstu mánuðina.

Vísir hf. sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að til starfsstöðvar fyrirtækisins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík muni leggjast niður og vinnslan öll flytjist til Grindavíkur.

Starfsfólki verður boðin vinna í Grindavík og aðstoð við flutning. Einnig hyggst Vísir aðstoða við uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi á staðnum.

Á Djúpavogi er verið að hefja samvinnu við Fiskeldi Austfjarða um slátrun, vinnslu og pökkun á þeim fiski sem alinn verður í kvíum eldisins í Berufirði.

„Þessi starfsemi kallar á 20 til 25 starfsmenn og munu þeir starfsmenn fyrirtækisins sem eru með fasta búsetu á Djúpavogi hafa forgang að þessum störfum, öðrum verður boðið starf hjá Vísi í Grindavík og aðstoð við flutning og húsnæði," segir í tilkynningu Vísis.

Gauti vonast eftir að eldið geti komið í stað vinnslunnar. „Fiskeldið er með 8000 tonna vinnsluleyfi. Í dag eru 500.000 seiði og búið að leggja drög að því að slátra 1200 tonnum í ár.

Ef áform fyrirtækisins ganga eftir er ljóst að vinnslan verður svipuð, jafnvel meiri, og er hér í dag. Þess vegna kýs ég að kalla þetta tímabundið bakslag," segir Gauti.

Hann gerir ráð fyrir að funda með fulltrúum fiskeldisins og Vísis í næstu viku og segir forsvarsmenn Vísis jafnframt hafa staðfest að bátar félagsins muni eftir sem áður landa á Djúpavogi enda liggi staðurinn vel við miðunum.

„Djúpivogur hefur áður mætt mótlæti og staðið það af sér með samstöðu og krafti þeirra sem búa hér. Það er ekki um annað að ræða en standa í lappirnar og halda áfram."

Mynd: Magnús Kristjánsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.