Starfsmenn Vísis í sjokki eftir tilkynningu um lokun á Djúpavogi
Starfsfólk Vísis á Djúpavogi er slegið eftir að fyrirtækið tilkynnti í dag að það áformaði að hætta fiskvinnslu á staðnum frá og með 1. ágúst. Tíðindin þykja óvænt þar sem fyrirtækið hefur byggt upp í bænum síðustu ár.„Þetta er mjög mikið áfall. Það eru margir í sjokki. Þessi tíðindi koma algjörlega fyrirvaralaust framan í starfsfólkið," segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags.
Fundur var boðaður með starfsfólki Vísis á Djúpavogi klukkan eitt í dag þar sem því voru færðar fréttirnar. Til stendur að hætta allri bolfiskvinnslu á staðnum frá og með 1. ágúst og flytja til Grindavíkur. Slíkt hið sama gerir Vísir einnig við vinnslur sínar á Húsavík og Þingeyri.
Eftir það stendur til að nýta húsnæðið undir slátrun og vinnslu Fiskeldis Austfjarða. Þrátt fyrir það er ljóst að starfsmönnum fækkar strax um helming, úr fimmtíu í 25.
Í tilkynningu sem Vísir sendi á fjölmiðla í dag segir að starfsfólki verði boðinn vinna hjá fyrirtækinu í Grindavík og aðstoð við flutning.
Þar kemur fram að með breytingunum sé verið að bregðast við breyttum kröfum frá útflutningsmörkuðum þar sem afurðaverð hafi lækkað og auknar kröfur gerðar um ferskleika og skjóta afgreiðslu.
Með að flytja vinnsluna á einn stað eigi að nást aukin framleiðni og meiri sveigjanleiki í vinnslu þannig hægt verði að stýra framleiðslunni í verðmætustu afurðaflokkana hverju sinni. Grindavík er sagður heppilegur staður vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll og útflutningshöfn.