Vísir áformar að flytja fiskvinnslu frá Djúpavogi: Erum hundsvekktir yfir þessari stöðu

visir djupi mk webFramkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis segir það erfiða tilhugsun að flytja fiskvinnslu fyrirtækisins frá Djúpavogi eftir áralanga uppbyggingu þar. Starfsfólki var tilkynnt um áform fyrirtækisins í dag þótt endanleg ákvörðun liggi ekki enn fyrir. Í hönd fer samráð við nærsamfélagið um hvernig best verði að standa að breytingunum gangi þær eftir.

„Við höfum verið með fjögur sérhæfð fiskvinnsluhús dreifð um landið og höfðum trú á þeirri stefnu fram á mitt síðasta ár. Við höfum verið að skoða stöðuna í langan tíma með færustu mönnum og erum hundsvekktir yfir þessari stöðu," segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.

Fyrirtækið tilkynnti í dag að það áformaði að hætta fiskvinnslu á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri og flytja allan tækjakost og vinnsluna til Grindavíkur. Um fimmtíu manns starfa hjá Vísi á Djúpavogi og er vonast til að helmingur þeirra fái áfram vinnu hjá Vísi við slátrun og vinnslu fyrir Fiskeldi Austfjarða sem Vísir hefur þegar samið við.

Þeir sem hafa fasta búsetu á staðnum ganga fyrir í þau störf. Öðrum verður boðin vinna hjá Vísi í Grindavík.

„Engum hefur verið sagt upp enn og við vonumst til að þess komi ekki. Nú hefst samráð við starfsfólk og fleiri í umhverfinu á meðan við áttum okkur hverjir koma með. Endanleg ákvörðun um framtíð vinnslunnar verður tekin fyrir lok apríl."

Pétur segir tvær megin ástæður liggja að baki ákvörðuninni. Annars vegar hafi skilyrði bolfiskvinnslu versnað með lækkandi afurðaverði og auknum kostnaði sem ekki sé útlit fyrir að lækki. Hins vegar eru það auknar kröfur erlendra markaða um ferskan fisk og sveigjanleika í afgreiðslu.

„Við fundum ekki aðra leið til að mæta þessu en færa alla vinnsluna á einn stað," segir Pétur og bætir við að nálægðin við Keflavíkurflugvöll hafi ráðið miklu um að Grindavík varð fyrir valinu. Pantanir séu að berast nánast þar til flugvélin fari í loftið og þróunin sé sú að þeir sem selji ferskan fisk úr landi komi sér í auknu mæli fyrir á suðvesturhorninu.

Bátar Vísis landa áfram á Djúpavogi þegar þeir eru að veiðum úti fyrir Austfjörðum. Slíkt voru þeir farnir að gera áður en fyrirtækið hóf vinnslu á staðnum árið 1999. Síðan hefur mikil uppbygging átt sér stað og segir Pétur að ný tæki hafi verið að berast í húsið allt fram á þennan dag.

Þeir starfsmenn Vísis sem fá vinnu við slátrun, verkun og pökkun fyrir Fiskeldi Austfjarða mæta til vinnu að loknum sumarleyfum 1. ágúst. Þeir sem kjósa að flytja suður hefja störf 1. september.

Í tilkynningu sem Vísir sendi frá sér í dag segir að til að draga úr áhrifum af flutningunum á starfsfólk og sveitarfélögin muni fyrirtækið „Vísir kappkosta að byggja upp nýja atvinnustarfsemi þar sem þess er kostur."

Fiskeldið kemur að einhverju leyti í staðinn á Djúpavogi en Pétur og Vísismenn skoða fleiri kosti. „Við erum að skoða nokkra þætti sem ekki er hægt að nefna. Við notum allan þann tíma sem við höfum og útilokum ekkert. Við erum opnir fyrir öllu."

Mynd: Magnús Kristjánsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.