Hætta skapast þegar hundarnir fæla fuglana fyrir flugvélarnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. apr 2014 17:07 • Uppfært 02. apr 2014 17:09
Hundaeigendur á Egilsstöðum geta valdið hættu með því að láta hunda sína hlaupa lausa í nágrenni við flugbrautina. Fuglar sem fælast undan þeim fljúga fyrir flugvélar sem getur verið stórhættulegt.
„Fuglar eru stórhættulegir fyrir flugvélar. Fugl sem flýgur framan á flugvél getur skapað þungt högg. Síðan geta þeir lent í hreyflunum og svo fram eftir götunum," segir Jörundur Ragnarsson, umdæmisstjóri ISAVIA á Austurlandi.
Austan megin við Egilsstaðaflugvöll hefur verið komið upp skilti til áréttingar um að lausaganga hunda sé bönnuð. Jörundur segir hundaeigendur keyra út á túnið við bílastæðin, út meðfram flugbrautinni og sleppa hundunum þar lausum.
„Hundarnir hlaupa síðan út og suður á eftir fuglunum sem fælast og af því þeir leita alltaf að vatni fljúga þeir þvert yfir flugbrautina að Lagarfljótinu.
Við höfum einu sinni lent í því að fuglastóðið flaug þvert fyrir flugvél sem var að koma inn til lendingar og þá skapaðist mikil hætta."
Á túninu halda nú til bæði álftir og gæsir. Grágæs getur orðið 3,5-4 kg þung og álftirnar tíu kílóa. Slíkur búkur gæti því valdið umtalsverðum skemmdum á skrokki flugvélar.