Austurvarp: Ein skógarhöggsvél getur sinnt allri grisjun á Íslandi

skogarhoggsvel hgs webStraumhvörf urðu í íslenskri skógrækt í síðustu viku þegar skógarhöggsvél af gerðinni Gremo kom til landsins með Norrænu. Sænskir kennarar fylgdu vélinni til landsins til að kenna nýjum eigendum réttu handtökin.

Vélin er í eigu vélafyrirtækisins 7, 9, 13 ehf. en eigandi þess er Kristján Már Magnússon. Hann hefur lokið grunnámi á vélina í Svíþjóð en hann er meðal reyndustu skógarhöggsmanna landsins.

Afkastageta vélarinnar er slík að ein slík getur sinnt allri grisjun á Íslandi. Á næstu árum þarf að grisja íslenska þjóðskóga um rúmlega 5.000m³. Meiri eftirspurn er eftir viðarkurli á Íslandi en framboð og útlit fyrir að það aukist verði byggð kísiljárnverksmiðja við Húsavík.

Það gefur aukna möguleika á að nýta grisjunarvið af Norður- og Austurlandi til iðnaðarframleiðslu vegna lægri flutningskostnaðar.

Til að arðsemi íslenskra skóga verði viðunandi og samkeppnisfær við innfluttan skógarvið þarf að grisja og hirða skóginn með aukinni tækni. Dagsverk skógarhöggsmanns með keðjusög er aðeins lítill hluti af afkastagetu sérhæfðra véla á klukkustund en slík tæki eru mjög vandmeðfarin.

Nokkur ár tekur að fullþjálfa starfsmann á slík tæki auk þess sem starfsmaðurinn þarf að geta lesið í skóginn til að átta sig á, hvaða tré á að fella í hvert skipti.

Vélin verður til sýnis við Arionbanka á Egilsstöðum á milli klukkan 13 og 15 á föstudag.

Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.