Sigmundur Davíð: Stjórnvöld hljóta að gefa mönnum tíma til að vinna að lausn

sigmundur david feb13Ríkisstjórnin ætlar að svo komnu máli ekki að beita sér í málum sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, sem hyggst meðal annars hætta bolfiskvinnslu á Djúpavogi í sumar. Útlit er fyrir að 25-35 starfsmenn missi vinnuna á stærsta vinnustað sveitarfélagsins. Oddviti vinstri grænna í Norðausturkjördæmi segir höggið verða af slíkri stærðargráðu að stjórnvöld hljóti að láta til sín taka.

„Nú standa yfir viðræður á milli fulltrúa þessa fyrirtækis og heimamanna á hverjum stað sem er tilraun til að reyna að finna lausn. Stjórnvöld hljóta að gefa mönnum frið til að vinna að slíkri lausn og vona að viðræðurnar skili sem mestum árangri," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í svari við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi í gær.

Á föstudag tilkynnti sjávarútvegsfyrirtækið Vísir að það ætlaði að hætta núverandi vinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík og flytja til Grindavíkur. Um fimmtíu starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu á hverjum stað.

Steingrímur, sem er oddviti vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, spurði hvort ríkisstjórnin hefði sett sig inn í málið og hvernig hún hygðist beita sér í málinu.

„Þetta eru svo þung högg á þessi byggðarlög að stjórnvöld hljóta að láta þau til sín taka. Ég óttast að það þurfi beinan atbeina stjórnvalda eigi að vera hægt að koma í veg fyrir að þetta gangi eftir með tilheyrandi afleiðingum fyrir byggðarlögin," sagði Steingrímur.

Vonar að enginn atvinnumissir verði

Sigmundur sagðist deila áhyggjum Steingríms af stöðunni og upplýst að ríkisstjórnin hefði sett sig inn í málið. Hún héldi sig þó til hlés að svo komnu máli því forsvarsmenn Vísis hétu því að reyna að tryggja atvinnu í staðinn fyrir vinnsluna.

„Framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur í fréttum lýst því yfir að hann og fyrirtækið séu að vinna í því á hverjum stað að ná niðurstöðu sem verði ásættanleg fyrir alla, að minnsta kosti sem flesta og tryggja að enginn atvinnumissir leiði af þessu. Við vonum að sem best gangi í þeirri vinnu og hún skili sem mestum árangri."

Á Djúpavogi mun Vísir taka að sér slátrun og vinnslu fyrir Fiskeldi Austfjarða frá og með 1. ágúst. Ekki er þó útlit fyrir að þar haldist eftir nema 15-25 störf.

Forsendubrestur og verðlausar eignir

Málið var einnig til umræðu á Alþingi á þriðjudag en Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona vinstri grænna úr Norðvesturkjördæmi, sagði Vísi bera mikla samfélagslega ábyrgð.

„Mér þykja þetta dapurleg tíðindi hjá þessu fyrirtæki sem fengið hefur meðgjöf í formi byggðakvóta á þessum stöðum í gegnum árin. Það hefur aflaheimildir frá Breiðdalsvík og Djúpavogi, heimildir sem voru á þessum stöðum.

Mér finnst mjög óeðlilegt þegar fyrirtæki sem eiga sér slíka sögu taka ekki meiri samfélagsábyrgð en raun ber vitni og segja við starfsfólkið á þessum stöðum: Við skulum aðstoða ykkur við að flytja búferlaflutningum til Suðurnesja."

Hún talaði um forsendubrest í lífskjörum íbúa á stöðunum. „Hver er forsendubrestur þessa fólks sem nú stendur frammi fyrir því að eignir þess eru jafnvel dæmdar verðlausar því að stærsta fyrirtækið á staðnum, eins og á Þingeyri og Djúpavogi, leggur upp laupana?"

Valgerður Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sagði um „grafalvarleg tíðindi" að ræða fyrir byggðarlögin.

„Ég vil bara vekja athygli á því að svona reiðarslag fyrir öll þessi byggðarlög hefur ekki bara áhrif á þá 50 eða 60 starfsmenn sem vinna hjá hverju fyrirtæki fyrir sig heldur hefur þetta áhrif á fjölskyldur þeirra, afkomendur og ættingja, og í sumum tilfellum erum við að tala um fólk af erlendu bergi brotið sem hefur flutt til Íslands, keypt sér eignir, ákveðið að setja sig niður á þessum stöðum og búa til framtíðar.

Þangað hafa jafnvel flutt ættingjar þessa fólks þannig að þetta setur allt í uppnám í þessum samfélögum. Svo hefur þetta auðvitað margfeldisáhrif út í samfélögin."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.