Nýr bátur í flota Borgfirðinga: Fálkatindur kom til hafnar í morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. apr 2014 10:46 • Uppfært 04. apr 2014 10:47
Nýr bátur bættist í flota Borgfirðinga þegar Fálkatindur kom til hafnar í fyrsta skipti upp úr klukkan sjö í morgun. Eigandinn Kári Borgar lýsir bátnum sem glæsilegu skipi.
„Það er gaman að vera með nýja og glæsilega báta," segir Kári.
Fálkatindur er ellefu metra langur, þriggja metra breiður og rúm 11 brúttótonn að stærð með um 500 hestafla vél. Hann er smíðaður í Seiglu á Akureyri.
Skipstjórinn verður Fannar Magnússon og hann kom á honum til Borgarfjarðar í morgun. „Ég mætti bara með stírurnar í augunum til að taka á móti honum," segir Kári.
Fálkatindur kemur í stað Glettu sem Kári seldi í fyrra. Hann gerir út þrjá báta, aðallega á línu og handfæri en einnig grásleppu þetta árið. Kári er ekki bjartsýnn á grásleppuveiðar í ár. „Ég reikna ekki með að fara neitt."
Mynd: Fannar Magnússon