Lýsa furðu og vanþóknun á niðurstöðu Fjarðabyggðar: Fleiri tálmar en Fjarðarheiði
Ferða- og menningarmálanefnd Seyðisfjarðar telur fleiri farartálma í vegi ferðalanga með Norrænu að vetrarlagi heldur en Fjarðarheiði. Nefndin er verulega óánægð með þá ákvörðun Fjarðabyggðar að halda áfram viðræðum við útgerð ferjunnar um möguleikana á siglingum til Eskifjarðar.Þetta kemur fram í áskorun frá fundi nefndarinnar í síðustu viku en til hans var sérstaklega boðað til að ræða hugsanlegan flutning ferjunnar.
Í áskoruninni lýsir nefndin „furðu og vanþóknun" á niðurstöðu hafnarstjórnar og bæjarráðs um að halda viðræðunum áfram og „treystir því að bæjarstjórn Fjarðabyggðar komi málinu í réttan farveg í samræmi við margítrekaðar samþykktir aðalfunda Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) um málið."
Nefndin telur einnig að flutningurinn leysi ekki vandamál við vetrarakstur farþega og þeirra sem þurfi að koma frakt í skipið.
„Nefna má vanbúna fólksflutningabíla frá mið-Evrópu og bílstjóra sem eru óreyndir íslenskum vetraraðstæðum. Einnig er rétt að benda á þá staðreynd að yfir veturinn koma einnig upp vandamál varðandi færð á Hólmahálsinum, Fagradal og á Möðrudalsöræfum."
Ferða- og menningarnefnd bendir á að staðhátta þekking heimamanna og reynsla á Seyðisfirði sé vannýtt í þessu tilliti en fullur vilji er til aðstoðar þegar það á við ef eftir henni væri leitað. „
Skorað er á forsvarsmenn Smyril-Line, bæjarstjórn og alla íbúa Fjarðabyggðar að styðja frekar við baráttu Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum undir Fjarðarheiði enda þekki „íbúar Fjarðabyggðar og Færeyja á eigin skinni mikilvægi jarðgangna og góðra samgangna."