Skip to main content

Björgunarsveitir kallaðar út til aðstoðar lekum bát í Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. apr 2014 17:03Uppfært 08. apr 2014 17:04

landsbjorg sjobjorgun webBjörgunaraðgerðir í Reyðarfirði gengu vel í dag þegar sjóflokkar björgunarsveita á Austurlandi voru kallaðir út eftir að tilkynning barst um lekan bát í mynni Reyðarfjarðar. Um var að ræða lítinn fiskibát með einum manni um borð.


„Þetta gekk mjög vel. Það var gott í sjóinn og fínar aðstæður," segir Guðjón Már Jónsson úr svæðisstjórn björgunarsveitanna.

Björgunarsveitirnar voru kallaðar út rúmlega þrjú í dag. Lekinn var töluverður og báturinn kominn á hliðina nokkrum mínútum eftir að neyðarkallið var sent út.

Björgunarbátur frá Björgunarsveitinni Ársól í Reyðarfirði kom á staðinn um hálftíma eftir að kallið barst. Sjómaðurinn var heill á húfi og hafði tekist að rétta við bátinn og var byrjaður að sigla í land. Honum var síðan fylgt inn til Eskifjarðar.

Töluverð hætta var á ferðum um tíma og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út en henni snúið við eftir að björgunarsveitarmenn voru komnir á staðinn. Nærliggjandi bátum var beint á svæðið og einnig fóru björgunarsveitamenn landleiðina út fjörðinn.