Sverrir Mar: Af hverju fóðra opinberu stofnanirnar endalaust Morgunblaðið?
Stjórnarformaður Austurgluggans segir Austfirðinga verða að sýna svæðismiðlum stuðning í verki vilji þau að þeir séu til staðar. Ekki gangi að fóðra miðla utan svæðis sem gegni þar takmörkuðu hlutverki og séu eins með takmarkaða útbreiðslu þar.„Af hverju fóðra opinberu stofnanirnar endalaust Morgunblaðið?" spurði Sverrir Mar Albertsson, stjórnarformaður Útgáfufélags Austurlands sem gefur út héraðsfréttablaðið Austurgluggann, í pallaborði á málþingi um svæðisfréttamiðla á Egilsstöðum á laugardag. Austurglugginn og Austurfrétt stóðu saman að málþinginu.
Sverrir nefndi sem dæmi að í Hafnarfirði, þar sem hann gaf á sínum tíma út bæjarblaði, hefði bærinn keypt auglýsingar af fjölmiðlum þegar þeir hefðu verið búnir að sanna sig í útgáfu.
„Af hverju beina Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð ekki auglýsingum sínum í þann miðil sem til staðar er á svæðinu. Við sjáum það oft að opinberir aðilar eru að auglýsa í miðlum með afar takmarkaða dreifingu á svæðinu."
Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri sem var meðal frummælenda á málþinginu, tók í svipaðan streng.
„Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar spurði ég frambjóðendur á Akureyri hvort þeir hefðu fjölmiðlastefnu. Þeir sögðu allir að það væri slæmt að RÚV væri hætta svæðisútsendingum en engum datt í hug að nefna að það væri stefna hjá sveitarfélaginu að kaupa auglýsingar í ritstýrðum miðlum."
Framsögumenn á fundinum virtust þó sammála um að auglýsingarnar snérust ekki um að styrkja einn eða neinn. Þær snúast um að skapa ímynd eða koma vöru á framfæri til að auka viðskipti. Auglýsingasala annarra miðla á svæðinu hefur ekki aukist að marki síðan svæðisútsendingum RÚVAust var hætt árið 2010.
Ágúst Ólafsson, forstöðumaður RÚV á Akureyri og áður á Egilsstöðum, sagðist í gegnum tíðina oft hafa mætt þekkingarleysi sveitarstjórnarmanna á hlutverki fréttamanna. „Við vorum álitið hnýsið fólk með athyglissýki. Ég var einu sinni boðaður á fund bæjarstjóra og spurður hvort við gætum ekki hætta að segja þær fréttir sem við sögðum."
Hann sagði enn fremur skorta pólitískan stuðning við Ríkisútvarpið. „Nefskatturinn fer ekki allur til RÚV. Pólitíkin hefur ekki passað upp á svæðisstöðvarnar. Hún gerði ekkert þegar svæðisútsendingunum var hætt."
Sverrir sagði að rekstrarumhverfi áskriftarmiðilsins gæti oft verið erfitt. „Ef við flytjum frétt af atburði hér sem þóknast ekki einhverjum getur það leitt til uppsögn heillar ættar eða kaupstaðar á blaðinu og kaupa það ekki aftur árum saman. Þetta er rekstararumhverfið sem við búum við."