Eina boðið í rannsóknir fyrir Fjarðarheiðargöng langt yfir kostnaðaráætlun
Vegagerðin metur nú stöðuna eftir að aðeins eitt boð langt yfir kostnaðaráætlun barst í rannsóknarboranir fyrir væntanleg Fjarðarheiðargöng. Þrjátíu milljónir voru ætlaðar í verkið af fjárlögum í ár.Tilboðin voru opnuð á þriðjudag en um er að ræða 550 metra kjarnaborun sem lokið skal fyrir 1. september.
GeoTækni á Selfossi átti eina boðið í verkið upp á 47,95 milljónir króna eða 155,8% af kostnaðaráætlun sem var upp á 30,8 milljónir.
„Það er á þessari stundu bara verið að fara yfir þetta og þarf einhvern tíma í það skoða þetta og meta síðan í framhaldinu," segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í svari við fyrirspurn Austurfréttar um hver næstu skref í málinu verði og hvaða áhrif boðið hafi á framvindu verksins.