Vilhjálmur Jóns: Ágætt að hittast og fara yfir málin
Bæjarstjórnar, bæjarráð og fulltrúar hafnanna á Seyðisfirði og í Fjarðabyggð hittust á fundi á Seyðisfirði í gær til að ræða málefni ferjunnar Norrænu. Bæjarstjóri Seyðisfjarðar segir lítið hafa komið út úr fundinum þótt alltaf sé gott að hittast til að ræða málin.„Með reifuðu sín sjónarmið sem eru nokkuð ólík. Það er ágætt að eiga hittast og fara yfir málin og skiptast á skoðunum en það kom mjög lítið út úr fundinum," segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði.
Töluverðrar tortryggni hefur gætt af hálfu Seyðfirðinga gagnvart nágrönnum sínum eftir að bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð ákváðu að halda áfram viðræðum við útgerðina Smyril-Line um mögulegar siglingar Norrænu til Eskifjarðar. Vilhjálmur segir að enn „sitji við það sama" í því viðhorfi.
Talsmenn Fjarðabyggðar hafa ítrekað lýst yfir að þeir telji sér ekki stætt á að hafna fyrirtæki sem óski eftir þjónustu um viðræður. Slíkt hafi Smyril-Line gert með bréfi í byrjun nóvember.
„Mér finnst eðlilegt og kurteist að menn taki á móti erindum og hitti menn. Ég hef alltaf sagt það," segir Vilhjálmur.
„En þó mér finnist það eðlilegt að þá hafa menn samþykktir um skipulagsstefnu fyrir fjórðunginn og ég tel að þær beri að virða. Það hefði til dæmis getað verið eðlileg útkoma úr fyrsta fundi. Það hefði verið hægt að afgreiða málið strax í annan farveg af yfirvegun."
Vilhjálmur segir að bréf á borð við það sem barst hafnarstjórn Fjarðabyggðar í nóvember „verði ekki til án aðdraganda. Það eru samt aðrir sem geta skýrt þann aðdraganda betur.
Það er samt alveg ljóst að það verður ekki til í tóminu. Ég hengi það samt ekki frekar á háls Fjarðabyggðar eða fulltrúa þar umfram aðra."
Vilhjálmur telur heldur ekki að uppruninn skipti öllu máli. „Það er sem er liðið er liðið. Málið snýst nú um að leysa það farsællega."
Fundurinn í gær stóð í þrjá tíma. Tækifærið var nýtt til að ræða fleiri málefni en Norrænu enda ekki oft sem sveitarstjórnir hittast utan þinga Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem eru árleg.
Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur óskað eftir því að stjórn SSA fundi þar um málefni Norrænu. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er stefnt á stjórnarfund strax eftir páska en Djúpivogur er einnig hugsanlegur fundarstaður út af fiskvinnslumálum staðarins.