Ferðamenn sækjast eftir ósnortnum víðernum: Rosalega skemmtilegt að sjá ekki neinn á leiðinni

illikambur gangaFerðamenn á hálendi Íslands sækjast eftir að ferðast um ósnortin víðerni. Það er þó ekki algilt því sumum kann að þykja það ógnandi að vera svo einir á ferð. Upplifun þeirra má til dæmis bæta með að merkja gönguleiðir en aukin umferð og þjónusta gæti skaðað upplifun annarra.

Þetta kemur fram í rannsókn á viðhorfi ferðamanna á þrettán stöðum á hálendi Íslands. Tveir austfirskir ferðamannastaðir voru teknir með í könnunina, Lónsöræfi og Kverkfjöll.

Lónsöræfin skera sig úr hvað varðar þjóðerni ferðamannanna en um 90% gesta þar eru Íslendinga. Þýskumælandi ferðamenn eru hins vegar mest áberandi í Kverkfjöllum.

Langflestir ferðamannanna sem heimsækja staðina sækjast eftir ósnortnum svæðum. Misjafnt er hvaða mannvirki mega vera til staðar. Fjallaskálar þykja ekki spilla upplifuninni en virkjanir, hótel og veitingastaðir hafa neikvæða ímynd á svæðunum.

Haft er eftir ferðamanni sem fór frá Eyjabakka í Múlaskála á Lónsöræfum að 30 manna gönguhópurinn hefði ekki séð neinn á leiðinni og það væri „auðvitað rosalega skemmtilegt."

Franskur ferðamaður í Kverkfjöllum kunni vel við einfaldleikann þar. „Náttúran er mjög hrein hér og það gerir þetta að ævintýri. Við þurfum að finna út hvernig við komum upp tjöldunum okkar eða hafast við í bílnum. Samanborið við til dæmis Alpana þá eru þar breiðir vegir og fólk alls staðar þannig það svæði er alls ekki nógu ósnortið."

Væntingar ferðamanna eru best uppfylltar á Lónsöræfum af þeim stöðum sem teknir voru fyrir, bæði til svæðis og þjónustunnar. Það er líka það svæði þar sem gróðurskemmdir sjást síst.

Ógn af fámenninu

Fámennið og einfaldleikinn er þó ekki allra og sumum stendur ógn af því. Í skýrslunni er sagt frá ítalskri konu sem keypti ferðaplan af þarlendri ferðaskrifstofu. Hópurinn ferðaðist einn í tveimur sendibifreiðum til Kverkfjalla og sagðist hún hafa upplifað ferðalagið sem hættulegt.

Á Lónsöræfum fannst eldri hjónum frá Hollandi óþægilegt að sjá engan á leiðinni úr Snæfelli í múlaskála. Ekki bætti úr skák að þar er ekki símasamband. Þeim fannst þau ein, stígarnir ógreinilegir og óttuðust að finnast ekki ef eitthvað kæmi fyrir.

Þau báru leiðina við aðra leið sem þau höfðu gengið í Noregi. „Þar fylgdum við merktri slóð og það er alltaf einhver sem kemur í kjölfarið daginn eftir. Þannig er það ekki hér og það er ógnvekjandi."

Stærðin styrkleiki Kverkfjallasvæðisins

Um Kverkfjallasvæðið segir í rannsóknarskýrslunni að það sé víðfeðmt þannig ferðamenn verði lítið varir hver við annan. Þeir komi almennt til að upplifa ósnortið svæði og eru ánægðir með upplifunina. Flestir gista í tvær nætur og ferðir með landvörðum að hverasvæðinu í Hveradal og á jökulinn mælast vel fyrir.

Ferðamenn eru ánægðir með aðstöðuna þar og svæðið virðist geta tekið við fleiri ferðamönnum án þess að upplifun þeirra skaðist.

Lónsöræfin fyrir þá sem vilja reyna á sig

Sem fyrr segir eru ferðamenn á Lónsöræfum ánægðir með svæðið og jafnvel gagngert komnir til að upplifa slíkt umhverf. Einhverjir kvarta þó undan erfiðu göngulandi og illa merktum gönguleiðum.

Skýrsluhöfundar vara við að það geti verið tvíbent að bæta þar úr. Þar með yrði svæðið aðgengilegra fyrir fleiri en yrði um leið minna spennandi fyrir þá sem sækja í óraskaða náttúru og fámenni. Lítil þjónusta sé í raun sérstaða svæðisins.

Skýrsluhöfundar telja kjörið að taka Lónsöræfi frá sem gönguland fyrir þá sem vilja mikla áskorun fyrir líkamlega getu sína og vilja lifa við frumstæðar aðstæður á ferðalagi um hálendið. Þeir telja einnig tækifæri fyrir ferðaþjónustu í nágrenni friðlandsins vegna þess hversu afskekkt það sé því ferðamenn dveljist í byggð fyrir og/eða eftir dvölina á Öræfunum.

Hægt er að dreifa ferðamönnum um svæðinu því þar eru „fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir" fyrir utan þær meginleiðir sem flestir ferðamenn ganga. Fjölbreytileikann má einnig nota til að lokka menn aftur á svæðið

Skýrsluhöfundar segja að í stefnumótun fyrir svæðið þurfi að ákveða hvort jaðarsvæði friðlandsins skuli höfða til mestu náttúrusinnanna eins og nú er, eða hvort höfða skuli til þess hóps sem nú gengur um megingönguleiðir friðlandsins (náttúrusinna og almennra ferðamanna).

Verði síðarnefnda stefnan valin sé æskilegt að byggja upp fleiri gönguskála á þessum leiðum, en um leið þurfi að gera sér grein fyrir að markhópurinn breytist mögulega.

Úr gönguferð um Lónsöræfi. Mynd: Gunnlaugur B. Ólafsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.