Krefjast tafarlausra aðgerða stjórnvalda til að koma í veg fyrir meiriháttar bakslag
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps krefst þess að stjórnvöld grípi þegar í stað til aðgerða þannig að afstýra megi meiriháttar bakslagi í veiðum og fiskvinnslu á Djúpavogi.Þetta kemur fram í ályktun frá síðasta sveitarstjórnarfundi. Um mánuður er síðan Vísir hf.tilkynnti að fyrirtækið hygðist flytja þá vinnslu sem fyrirtækið er nú með á Djúpavogi til Grindavíkur í hagræðingarskyni.
Í ályktuninni segir að sveitarfélagið verði nú í annað sinn á fáum árum fyrir miklu höggi í sjávarútvegi en uppsjávarvinnslu var hætt þar árið 2006.
Sveitarstjórn krefst þess að tryggðar verði sambærilegar aflaheimildir og fyrirsjáanlegt er að hverfi úr byggðarlaginu „til að forða hruni í bolfiskvinnslu á Djúpavogi."
Með vinnslunni fara þær veiðiheimildir sem Vísir er með á Djúpavogi, um 3600 þorskígildistonn eða um 90% þeirra aflaheimilda sem skráðar eru í sveitarfélaginu.
Í ályktuninni segir að ítrekað hafi verið reynt að ná stjórnarþingmönnum kjördæmisins saman til fundar vegna stöðunnar. Sveitarstjóra er falið að fylgja því „fast eftir" að fá fund í heimabyggð sem fyrst með öllum þingmönnum kjördæmisins ásamt sjávarútvegsráðherra.
Fulltrúar Djúpavogshrepps funduðu ásamt þingmönnum kjördæmisins og stjórn SSA í síðustu viku. Á fundinn mætti aðeins einn þingmaður meirihlutans, Líneik Anna Sævarsdóttir. Úr stjórnarandstöðu mætti Kristján Möller, Brynhildur Pétursdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, sem heimsótti Djúpavog fyrr um daginn.
Mynd: Magnús Kristjánsson