Þrír þingmenn ekki enn skýrt fjarveru frá SSA fundi

ssa thingmenn april14 0060 webÞrír þingmenn Norðausturkjördæmis hafa ekki svarað fyrirspurn Austurfréttar um hvers vegna þeir hafi ekki sótt fund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi með forsvarsmönnum Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Breiðdalshrepps og útgerðarmönnum.

Tæpar tvær vikur eru síðan fundurinn var haldinn en Austurfrétt sendi þeim þingmönnum sem ekki mættu á fundinn tölvupóst á vinnustað þeirra með fyrirspurn um fjarveruna.

Framsóknarþingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson hafa ekki svarað né heldur Valgerður Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki.

Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki, Bjarkey Gunnarsdóttir, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Þórunn Egilsdóttir, Framsóknarflokki, svöruðu á móti fyrirspurninni,

Kristján Þór, sem jafnframt er heilbrigðisráðherra, segist hafa verið bundinn við „önnur verkefni og fundi sem ómögulegt var að fresta fyrir þennan fund." Enginn fulltrúi hans flokks mætti.

Þórunn segist hafa verið upptekin á þingflokksfundi, þar sem meðal annars hafi verið rædd málefni sjávarútvegs.

„Það var metið svo að ég þyrfti að vera þar vegna málefna sem þar voru rædd og tengjast þeim nefndum sem ég sit í. Því var ég ekki fulltrúi þingflokksins að þessu sinni. Við þingmenn skiptum með okkur verkum," segir hún en Líneik Anna Sævarsdóttir var fulltrúi Framsóknarmanna á fundinum.

Bjarkey fór í tæplega þriggja vikna veikindaleyfi í apríl og var í því þegar fundurinn var haldinn. „Hins vegar var ég og er í góðu símasambandi við oddvita Djúpavogshrepps vegna þeirra mála sem uppi eru."

Þá mætti Steingrímur J. Sigfússon fyrir hönd VG. Fundinn sátu einnig Kristján Möller, Samfylkingu og Brynhildur Pétursdóttir, Bjartri framtíð.

Á fundinum voru rædd málefni fiskvinnslu Vísis á Djúpavogi, mögulegur flutningur á viðkomuhöfn Norrænu frá Seyðisfirði og verkefnið Brothættar byggðir á Breiðdalsvík.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.