Skip to main content

Ágætur gangur í kolmunnaveiðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. maí 2014 14:13Uppfært 06. maí 2014 14:14

neskÁgætur gangur er í kolmunnaveiðum en skipin eru flest að veiðum innan færeysku lögsögunnar þótt aflanum sé landað á Austfjörðum. Barði dró Bjart til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi eftir að vélarbilun kom upp í síðarnefnda skipinu.


Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað hafa tekið á móti 35.400 tonnum það sem af er vertíðarinnar. Tveimur þriðju hluta aflans hefur verið landað í Neskaupstað.

Í frétt á vef Síldarvinnslunnar segir að veiðin hafi verið þokkalega góð innan færeysku lögsögunnar. Börkur NK er á leið í land og Beitir og Birtingur hafa fiskað þokkalega.

Á Vopnafirði landaði Lundey tæpum 1600 tonnum í gær. Á vef HB Granda er haft er eftir skipstjóranum að kolmunninn stefni í norður og farinn sé að veiðast heldur smærri fiskur en í fyrri veiðiferðum.

Barði landaði rúmum þrjú hundruð tonnum af blönduðum afla í Neskaupstað í gær. Ufsi var uppistaðan í aflanum.

Þegar Barði var nýkominn til hafnar fréttist af því að bilun hefði komið upp í aðalvél ísfisktogarans Bjarts þar sem hann var að veiðum á Haftinu í Berufjarðarál og fékk Barði það hlutverk að draga hann til hafnar þangað sem þau komu um miðnætti.