Leitað að þremur ungum stelpum: Fóru í langa göngu því þær vantaði eitthvað spennandi að gera
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. maí 2014 00:08 • Uppfært 08. maí 2014 00:09
Ítarleg leit var gerð að þremur níu ára gömlum stelpum á Egilsstöðum í kvöld. Þær komu fram um miðnættið inni á Völlum. Leit hafði þá staðið í um einn og hálfan tíma.
Stelpurnar lögðu a stað um klukkan hálf átta í kvöld. Að sögn lögreglu fundu þær ekkert spennandi að gera en ákváðu að gera eitthvað í því og lögðu því af stað í göngu.
Leit að þeim hófst á ellefta tímanum í kvöld. Laust fyrir miðnætti komu þær fram á bænum Strönd á Völlum, um 15 km fyrir innan Egilsstaði. Þær voru heilar á húfi en nokkuð kalt því þær voru ekki búnar til langrar göngu.
Þá var búið að fínkemba nær allt þéttbýlið á Egilsstöðum í leit að þeim. Spennuþörf þeirra mun hafa verið svalað og þær lofað að gera þetta aldrei aftur.