Sigrún Blöndal: Sé eftir að hafa ekki verið fyrr á móti þessu

sigrun blondal 2013Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sátu hjá við afgreiðslu framkvæmdaáætlunar við veghleðslur á Breiðdalsheiði í gær. Þeir segjast ósáttir við tilurð, meðferð og forgangsröðun þeirra fjármuna sem forsætisráðuneytið veitti til verkefnisins.

„Ég er ósátt við hvernig fé ríkisins er varið því við höfum verið að kalla eftir fé í verkefni og oftar en ekki barið höfðinu við steininn," sagði Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans á fundinum í gær.

Þar kom til afgreiðslu framkvæmdaáætlun við skráningu og uppbyggingu veghleðsla á Breiðdalsheiði. Forsætisráðuneytið veitti fimm milljónir til verksins. Féð var veitt án auglýsingar en forseti bæjarstjórnar benti forsætisráðherra á verkefnið með SMS-i.

„Það fyllir mig óhug þegar við berjumst um á hæl og hnakka til að fá peninga í brýn verkefni. Þá virðast engir peningar til en svo eru allt í einu til 200 milljónir í svona verkefni. Er þetta það sem við þurfum mest á að halda. Þetta þykja mér ekki skynsamleg vinnubrögð."

Ekki brýnt í samanburði við önnur verkefni

Fulltrúar meirihlutans gagnrýndu minnihlutann fyrir að lýsa yfir andstöðu sinni núna þegar þeir hefðu stutt verkefnið þegar það var fyrst kynnt í júlí í fyrra og síðan fagnað styrkveitingunni þegar hún barst í janúar.

Í bókun sem fulltrúar Héraðslistans lögðu fram er einnig gagnrýnt að ekki hafi verið ákveðið í bæjarstjórninni að sækja um styrk í verkefnið. „Þrátt fyrir að jákvætt væri tekið í hugmyndir um verkefnið á síðasta ári þegar hugmyndinni var varpað fram, getur það ekki talist sérlega brýnt í samanburði við ýmis önnur verkefni sem ráðast þyrfti í."

Sigrún viðurkenndi að best hefði verið að lýsa andstöðunni strax. „Ég sé eftir að hafa ekki verið fyrr á móti þess en betra er seint en aldrei. Það er betri samviska af því að lýsa því nú en ekki."

Ofbauð umfang styrkveitinganna

Hún sagði upplýsingar um tilurð styrksins hafa breytt afstöðu fulltrúa Héraðslistans. „Mér ofbauð þegar á leið, umfang styrkveitinga sem þessara sem fóru hér um allt land og talvert í þetta kjördæmi til verkefna sem voru í mörgum tilfellum ekki undirbúin.

Væri ekki betra að fá þessar fimm milljónir í Borgarfjarðarveg? Við erum oft andværalaus yfir því að mótmæla því sem okkur finnst ekki brýnt en ég verð að viðurkenna að það hvarflaði aldrei að mér að við fengjum pening í þetta verkefni.

Auðvitað á maður að fagna því að það komi peningar í verkefni hér en í samhengi hlutanna finnst mér ekki hægt að gleðjast óskaplega yfir því," sagði Sigrún og bætti við því að hún drægi þann lærdóm að „taka ekki fagnandi góðum hugmyndum fyrr en ég sé hvað er að baki þeim."

Ekki á móti verkefninu

Árni Kristinsson tók í sama streng. „Ég lít ekki svo á að með þessari afgreiðslu séum við á móti verkefninu. Það er tilurðin á styrknum og þeim peningum sem koma sem mér ofbýður.

Auðvitað hefði ég átt að hafa manndóm í mér strax í janúar til að rísa upp og mótmæla en það er ekki hægt að horfa framhjá því að á sama tíma og við horfum á niðurskurð á peningum í ýmis verkefni séu til gæludýrasjóðir sem sletta út peningum."

Árni gagnrýndi einnig að ekki hefði verið samþykkt „í bæjarkerfinu" að sótt yrði um styrk heldur hefði það farið „eftir öðrum kanölum. Það get ég ekki verið sáttur við.

Ég hef alltaf verið fylgjandi þessu verkefni og mun styðja það en mér finnst hlutirnir vera farnir að fara of hratt þegar allt í einu eru komnir peningar sem enginn bað um."

Stjórnsýslan á að vera gagnsæ

Í bókun Héraðslistans er einnig undirstrikað að „ákvarðanir um úthlutanir sem þessar séu teknar á markvissan og faglegan hátt í samráði við hlutaðeigandi." Fagfélög hafa gagnrýnt úthlutunina á þeim forsendum að verkefnin hafi ekki farið í gegnum sama mat og almennt gerist hjá þeim sjóðum sem veita styrki til minjaverndar.

„Stjórnsýslan á að vera gagnsæ. Við verðum að vita hvað ráðherrar eru að gera og hvernig," sagði Árni.

Karl S. Lauritzson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat einnig hjá. „Ég tel verkefnið ekki brýnt," sagði hann.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.