Stefán Bogi: Jákvætt þegar verkefni hér njóta náð fyrir augum ríkisvaldsins

stefan bogi mai2012 webFulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sátu hjá þegar fulltrúar meirihlutans samþykktu framkvæmdaáætlun fyrir uppbyggingu og skráningu veghleðslna á Breiðdalsheið á bæjarstjórnarfundi í gær. Fulltrúum meirihlutans þykir undarlegt hvernig afstaða minnihlutans hefur snúist þegar liðið hefur á málið. Þeir fagna því að fjármunir frá ríkinu komi í framkvæmdir í sveitarfélaginu.

„Þetta mál er ekki að koma í fyrsta sinn fyrir augu bæjarfulltrúa. Fulltrúar hafa bókað í bæjarráði að þeir líti jákvætt á málið. Það var afgreitt í ráðum og nefndum án mótmæla. Það er ekki fyrr en búið er að fara í þá vinnu að greina hvað menn ætla að gera og vinna með Minjastofnun að menn sjá ástæðu til að greiða atkvæði gegn því. Mér finnst þetta einkennilegt," sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks og forseti bæjarstjórnar, á fundinum.

Sveitarstjórnir Fljótsdalshéraðs og Breiðdalshrepps hafa tekið jákvætt í og fagnað hugmyndum um uppbyggingu veghleðslna á Breiðdalsheiði sem eru um 150 ára gamlar. Forsætisráðuneytið veitti fimm milljóna styrk til verkefnisins. Sú styrkveiting hefur verið umdeild þar sem hún fór ekki í gegnum samkeppnissjóði líkt og flest önnur verkefni í minjavernd.

Af hverju mótmæltu menn ekki fyrr?

„Ég hlýt að spyrja eftir hverju menn sjá fyrst þeir andhæfðu hugmyndinni ekki fyrr. Menn höfðu öll tækiæri til að gera grein fyrir afstöðu sinni í málinu. Hvenær áttuðu menn sig á að þetta væri svona ómögulegt og hvað er svona ómögulegt viða ð ráðast í þetta verkefni," spurði Stefán Bogi.

„Mér finnst það ekki veruleg virðing fyrir vinnu þeirra sem hafa unnið að framgangi málsins að snúa við blaðinu á síðustu stundu og taka einhverja prinsipp afstöðu sem ekki var upp á borðinu fyrr í ferlinu.

Það er hart ef menn greiða atkvæði gegn nákvæmlega þessum þætti því hér er um að ræða áætlun sem Minjastofnun þarf að samþykkja sem er skilyrði þess að styrkurinn verði greiddur. Við fengum ekki bara óútfylltan tékka. Við viljum einmitt vinna verkið faglega. Út á það gengur áætlunin."

Ekki sérstök uppfinning Sigmundar Davíðs að útdeila peningum úr ráðuneyti

Fulltrúar minnihlutans svöruðu því til að þeim ofbyði meðferð opinbers fjár og ógagnsæi við úthlutun þess. Þeir gagnrýndu einnig að styrkurinn hefði fengist án þess samþykkt væri sérstaklega í bæjarkerfinu að sækja um styrk í verkefnið. Í þessu tilfelli vakti Stefán Bogi athygli forsætisráðherra á verkefninu með SMS-i.

Stefán Bogi nefndi að síðasta ríkisstjórn hefði einnig veitt peningum til Austfjarða án þess að sérstaklega væri um þá sótt. Það dæmi sagðist hann nefna til að „slá á þá umræðu" að það væri „sérstök uppfinning" Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að útdeila peningum beint úr ráðuneyti í verkefni.

„Þetta tókst óvenju vel"

Hann sagðist hins vegar „heilt yfir" þeirrar skoðunar að nota ætti „aðrar aðferðir til að útdeila peningum en þarna var gert." Ráðherrann hefði sjálfur bent á sóknaráætlanir landshlutanna í því samhengi.

„Ég benti Sigmundi Davíð á að þarna væri verkefni sem væri þess virði að skoða. Ég tel það eina stærstu skyldu okkar kjörinna fulltrúa að benda á verðug verkefni.

Ég verð að segja að þetta tókst óvenju vel. Ég er ekki vanur að svona vel gangi. Ég er svekktur yfir að menn fetti fingur út að einu sinni takist að berja einhverju í gegn."

Fulltrúar minnihlutans lýstu einnig þeirri skoðun sinni að ýmis verkefni væru brýnni. Stefán Bogi varaði við að þar væru menn komnir út á hálan ís. „Sumir flokkar eru þess eðlis að við gætum ráðstafað öllum okkar fjármunum í þá. Hér þurfum við hins vegar að reka heildstætt kerfi."

Pólitískur hanaslagur á landsvísu

Gunnar Jónsson, oddviti Á-listans, sagði málið vera farið að „snúast um pólitískan hanaslag á landsvísu. Það er rétt að margt mætti hugsanlega þarfara gera við peningana. Við verðum hins vegar alltaf í þeirri stöðu.

Þessir peningar eru eyrnamerktir í þetta og þá sláum við ekki hendinni á móti því. Við eigum að nota tækifærið til að þakka fyrir að fá þó þessa peninga í þetta sveitarfélag."

Á fundinum var samþykkt að semja við stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands um fyrstu tvo verkþætti áætlunarinnar, sem snúast um skráningu á fornminjunum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.