Truflun frá stóriðju á suðvesturlandi olli rafmagnsleysi á Austurlandi

raflinur isadar landsnetTruflun frá stóriðju á suðvesturlandi hleypti af stað keðjuverkunum í rafkerfi landsins sem olli um tveggja tíma rafmagnsleysi víða um Austurland á mánudagskvöld. Raftæki skemmdust í spennusveiflunum. Skerða hefur þurft orku til raforkunotenda á Austurlandi að undanförnu vegna lágrar vatnsstöðu í Hálslóni.

Truflanirnar hófust þegar álag frá stóriðjunni leysti út. Við það var raforkukerfinu skipt upp í landshlutabundnar eyjar til að takmarka sveiflurnar. Ragnar Guðmannsson, yfirmaður stjórnstöðvar Landsnets, segir að framan af hafi allt gengið eðlilega, fyrir utan að eldingavari hafi farið við Höfn í Hornafirði.

Hins vegar hafi orðið bilun í búnaði á Hólum við innsetningu línu þar sem orsakaði aflsveiflur þegar kerfin voru tengd saman á ný.

Í tilkynningu sem Landsnet sendi frá sér í dag segir að ástæður truflananna séu „fyrst og fremst raktar til þess að byggðalínan er rekin á þanmörkum." Því séu þær „enn og aftur áminning um mikilvægi þess að styrkja tengingu meginflutningskerfisins milli norður- og suðurhluta landsins."

Hjá RARIK fengust þær upplýsingar að „blikk" hefði orðið um allt Austurland og rafmagnslaust á Höfn og Austur-Skaftafellssýslu, Norðfirði, Breiðdalsvík og í stuttan tíma á Borgarfirði eystri. Lengst varði rafmagnsleysið á Breiðdalsvík, í um tvo klukkutíma.

Dæmi er um að raftæki hafi skemmst í flöktinu. „Það hefur lítið verið haft samband út af bilunum en maður hefur þó heyrt um eitthvað," sagði Ólafur Birgisson, deildarstjóri RARIK á Austurlandi.

Á vef RARIK má nálgast tjónaeyðublað sem notendur geta fyllt út og komið til rafmagnsveitnanna. Því blaði verður síðan komið áfram til viðeigandi aðila, í þessu tilfelli til Landsnets.

Þá hafa notendur umframorku búið við skerðingar að undanförnu sem rakin er til lágrar vatnsstöðu í Hálslóni. Sú ráðstöfun hefur einkum bitnað á fiskvinnslum sem rafvæðst hafa í auknu mæli. Sú skerðing hefur bæði náð yfir Norður- og Austurland.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.