Ég ætlaði ekki að vera með neinn æsing: Skoðanir mínar eru ekki nýtilkomnar

elvar jonsson2Til snarpra orðaskipta kom á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í gær í umræðu um ársreikning og almenningssamgöngur eftir að minnihluti Fjarðalistans lagði fram tillögu um að sveitarfélagið yrði allt eitt gjaldsvæði frá og með haustinu. Fulltrúar Fjarðalistans sögðu meirihlutann skorta pólitískan vilja og vera að þæfa málið en fulltrúar meirihlutans sögðu tillöguna kosningabragð.

„Ég ætlaði bara að vera rólegur og ekki vera með neinn æsing," sagði Guðmundur Þorgrímsson, Framsóknarflokki í umræðunum í gær.

Í umræðu um ársreikning Fjarðabyggðar, þar sem sveitarfélagið skilaði 940 milljóna afgangi í fyrra, lögðu fulltrúar minnihluta Fjarðalistans fram tillögu að sveitarfélagið yrði gert að einu gjaldsvæði fyrir notendur almenningssamgangna áður en vetraráætlun tekur gildi í haust.

Er pólitískur vilji?

Þeir sögðu svigrúm til þess í ljósi góðrar afkomu og vísuðu enn fremur til nýútkominnar stefnuskrár Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð þar sem segir að sveitarfélagið skuli verða eitt gjaldsvæði „í framtíðinni." Þar með töldu fulltrúar Fjarðalistans að meirihluti væri orðinn fyrir málinu í bæjarstjórn.

Fjarðalistinn hefur áður á kjörtímabilinu lagt fram sambærilegar tillögur en meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur ekki samþykkt þær. Líkt og áður var vísað til þess að kostnaður við breytinguna væri óljós og frekari upplýsingar skorti.

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans sagði meirihlutann tafið máli. „Af hverju er meirihlutinn ekki búinn að græja þetta er pólitískur vilji er til þess? Mitt svar er: Það er ekki pólitískur vilji."

Menn henda ekki bara tillögu inn á fund

Til harðra orðaskipta kom milli Elvars og Guðmundar sem sagði „með ólíkindum" að tengja tillöguna við ársreikninginn.

„Þetta á að stoppa. Menn koma ekki bara með tillögu og henda henni inn á fund. Menn gátu þess vegna komið með tillögur um eitthvað allt, allt annað, til dæmis lækkun fasteignagjalda.

Á ég að koma með mín hjartans mál, 10-15 tillögur og segja svo eins og Elvar: „Við viljum klára þetta." Að misnota ræðupúltið í beinni útsendingu til að sýna: „Við erum þau sem á að kjósa, hinir eru bara bjánar."

Það var einu sinni byggt heilt íþróttahús eftir tillögu sem kom inn á fund og var samþykkt á honum. Engar tölur voru lagðar fram. Hvers konar vinnubrögð haldið þið að þetta sé?

Ég er svo hissa á ykkur, ég verð að viðurkenna það. Ég óska eftir því við forseta að hann ljúki þessari umræðu eða gefi frí þannig menn geti búið til tillögur um það sem okkur langar til að lækka svo við getum notað það í kosningabaráttunni."

Málið á ekki að koma neinum á óvart

Elvar hafnaði því að hafa talað niður til annarra bæjarfulltrúa. Hann væri heldur ekki að nota málið sér til framdráttar í kosningabaráttunni þar sem Fjarðalistinn hefði barist fyrir jöfnun gjaldsins allt kjörtímabilið.

„Ég hef ekki með nokkru móti gefið það í skyn í máli mínu að þeir sem ekki eru sammála mér séu eitthvað vitgrennri en ég.

Ég ber eins af mér allar ásakanir um pöpulisma og að ég sé að nýta mér þetta í kosningabaráttu. Ég er bara að tala um mínar skoðanir og þær eru ekki nýtilkomnar þótt líða fari að kosningum.

Við eigum öll okkar hugarefni. Þetta hefur verið okkar áherslumál og því á ekki að koma neinum á óvart að það sé lagt fram hér."

Að tillögu forseta bæjarstjórnar var samþykkt að vísa tillögunni til umræðu á næsta fundi bæjarráðs. Fulltrúar fjarðalistans sátu hjá við þá samþykkt.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.