Samþykkt að endurskoða reglur um byggingamál með tilliti til tjóns af völdum myglusveppa

mygluhus vidgerd 0002 webAlþingi samþykkti í morgun þingályktunartillögu sem lögð var fram af tólf þingmönnum um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusvepps og tjóns af völdum þeirra. Tillagan var lögð fram í kjölfar myglumála í húsum á Austurlandi.

Tólf þingmenn úr öllum flokkum standa að baki tillögunni, þar af eru þrír úr Norðausturkjördæmi, þau Kristján Möller, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Gunnarsdóttir. Gert er ráð fyrir að starfshópur yfirfari reglurnar og skili tillögum í haust.

Mikil samstaða var um málið í umhverfisnefnd sem samþykkti tillöguna óbreytta. „Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að brenni hús til grunna þá bætist það af brunatryggingu, en þurfi fólk hins vegar að rífa hús sitt út af þessum vágesti og jafnvel með öllum innanstokksmunum og þess vegna fötum þá bætist ekkert og fólkið situr eftir með skuldirnar," sagði Kristján Möller við atkvæðagreiðsluna í morgun.

Skipan starfshópsins verður í höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Það er mikilvægt að gera þetta. Það mun ekki standa á því að skipa þennan starfshóp hratt og vel og að hann skili tillögum sínum á tilætluðum tíma," sagði hann í morgun.

Í greinargerð sem fylgdi tillögunni þegar hún var fyrst lögð fram var bent á skemmdir í þökum um 50 nýlegra húsa á Egilsstöðum og Reyðarfirði af völdum myglusvepps. Sveppurinn olli íbúum húsanna bæði heilsufars- og fjárhagslegu tjóni. Vandamálið er þó alls ekki bundið við fjórðunginn.

Gert er ráð fyrir að tekin verði til „heildstæðrar skoðunar lög og reglur sem geta tekið til myglusveppa og tjóns sem þeir valda." Gert er ráð fyrir að í starfshópi ráðherra sitji aðilar menntaðir í byggingafræðum, aðili með víðtæka fagþekkingu og reynslu á sviði rannsókna á myglusveppum í húsum og heilsufarsvandamálum þeim tengdum, auk aðila með kunnáttu á þeim lögum og reglum sem gilda um húsbyggingar og húsnæðismál.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.