Engir listar í Fljótsdal: Varaoddvitinn hættir í hreppsnefnd
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. maí 2014 15:10 • Uppfært 12. maí 2014 15:10
Ein breyting er fyrirsjáanleg á hreppsnefnd Fljótsdalshrepps þar sem varaoddvitinn hefur beðist undan endurkjöri. Í hreppnum verður að venju óhlutbundin kosning.
Þetta staðfesti Lára G. Oddsdóttir, formaður kjörstjórnar, í svari við yfirspurn Austurfréttar. Samkvæmt reglum geta þeir sem þjónað hafa beðist undan endurkjöri.
Þann rétt hefur Jóhann F. Þórhallsson, bóndi í Brekkugerði og varaoddviti, nýtt sér að þessu sinni.
Kosið verður laugardaginn 31. maí og segir Lára að kjörstaður verði opinn frá klukkan 10-18 þann dag. Fljótlega eftir það hefjist talning atkvæða.
Auk Jóhanns sitja í hreppsnefnd Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti, Jóhann Þorvarður Ingimarsson, Lárus Heiðarsson og Anna Jóna Árnmarsdóttir.