Við erum bjartir í dag: Skrifað undir samning um rannsóknir í Finnafirði

bardur jonasson april14Bárður Jónasson, oddviti Vopnafjarðarhrepps, segir mikla atvinnumöguleika felast í mögulegri umskipunarhöfn í Finnafirði fyrir sveitarfélögin á Norðausturlandi. Formlegur samningur á milli Bremenports, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og verkfræðistofunnar EFLU um rannsóknir á svæðinu var undirritaður í dag.

„Við erum bjartir í dag. Þetta hefur væntanlega merka og góða þýðingu fyrir sveitarfélögin í framtíðinni," sagði Bárður í samtali við Austurfrétt þar sem hann var á heimleið eftir undirritunina.

Hann telur umtalsverða atvinnumöguleika felast í vinnu í Finnafirði. „Það er ekki langt yfir, hvorki frá Vopnafjarðarhreppi né Langanesbyggð, þannig að í þessu felast töluverðir atvinnumöguleikar. Þarna eru komnir til aðilar sem horfa á þessa höfn sem umskipunarhöfn í allar áttir."

Í sumar hefst vinna við mat á umhverfisáhrifum og verður byrjað á að skoða gróður og fuglalíf við fjörðinn. „Jarðtæknilegar athuganir fara fram og komið verður fyrir veðurstöðvum á svæðinu og mælibaujum. Nákvæmar landmælingar og kortagerð munu ennfremur verða gerðar," að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Á árinu 2015 halda lífríkisrannsóknir áfram auk þess sem fornleifarannsóknum verður sinnt. Einnig verður lífríki fjöru og fjarðar rannsakað. Frumhönnun hafnarinnar mun hefjast sem og frumskoðun innra skipulags hafnarsvæðisins. Líklegt er að formlegt umhverfismatsferli geti hafist árið 2016 og má reikna með að það taki alls 2 ár.

Framkvæmdir við Finnafjörð gætu því í fyrsta lagi hafist árið 2018. Á komandi mánuðum munu eiga sér stað viðræður milli stjórnvalda og þróunaraðila Finnafjarðarhafnar um nauðsynlega innviði og grunngerð við Finnafjörð, s.s. raforkuafhendingu og vegagerð."

Með samningnum er staðfest ákvörðun samningsaðila að vinna saman að mati á hagkvæmni alþjóðlegrar umskipunar- og þjónustuhafnar í Finnafirði og ábata fyrir nærliggjandi svæði og sveitarfélög. Samningurinn kveður á um réttindi og skyldur aðila við rannsóknir og mat á lagalegum, tæknilegum, umhverfislegum og fjárhagslegum þáttum framkvæmda.

Með samningnum liggur fyrir áætlun um þær rannsóknir sem ráðast þarf í næstu ár. Heildarkostnaður við rannsóknir, umhverfismat og frumhönnun er áætlaður að nemi nokkur hundruð milljónum króna . Bremenports mun leggja til fjármagn til þessara verkefna.

Samningurinn var undirritaður í Ráðherrabústaðnum í morgun. Viðstödd voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

„Ríkisstjórnin hefur unnið með okkur og aðstoðað eins og sást í dag," segir Bárður. „Við erum mjög ánægðir með þessa undirritun."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.