Ómaklegt þegar menn eigna sér verk annarra: Var okkar langstærsta mál í síðustu kosningum

elvar jonsson mai14Tekist var á um hvort rétt væri að eigna Sjálfstæðisflokknum heiðurinn af ört minnkandi skuldum Fjarðabyggðar á opnum framboðsfundi á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi.

Frambjóðendur meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, hafa nýtt framboðsræður sínar til að ræða þann árangur sem náðst hefur í glímunni við skuldir sveitarfélagsins á kjörtímabilinu. Það ergði hins vegar Elvar Jónsson, oddvita Fjarðalistans, sem verið hefur í minnihluta í gær.

„Það er sorglegt að hlusta á frambjóðendur D-lista tala eins og þeir hafi einir tekið á sig niðurskurðinn. Það er sérstaklega ósanngjarnt gagnvart framsóknarmönnum.

Það hafa allir unnið að þessu. Við höfum lagt okkar af mörkum. Þeir hafa ekki þurft að eyða púðri í pólitískan óstöðugleika með kolvitlausan meirihluta. Það er ómaklegt ef menn koma upp og eigna sér verk sem allir hafa komið að."

Ábyrg fjármálastjórn ekki uppfinning Sjálfstæðisflokksins

Guðmundur Þorgrímsson, fráfarandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, gerði athugasemd utan úr sal. „Ábyrg fjármálastjórnun var ekki fundin upp undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Hún hófst eftir hrunið í tíð Fjarðalistans og Framsóknarflokksins og hefur verið haldið áfram undir forustu Jóns Björns Hákonarsonar."

Jens Garðari Helgasyni, oddvita Sjálfstæðismanna, fannst ekkert að því þeir berðu sér á brjóst . „Að taka á skuldum sveitarfélagsins var langstærsta málið sem við lögðum upp með og börðumst fyrir í síðustu kosningum. Út á það fengum við 40% fylgi og fjóra menn kjörna. Burtséð frá titlum höfum við haft ákveðna forustu í þessari bæjarstjórn."

Ragnar Sigurðsson, fimmti maður á lista Sjálfstæðismaður sagði „góðan árangur í fjármálum sjaldnast verðlaunaðan í kosningum."

Fulltrúar Norrænu skoðuðu hafnir án vitundar Fjarðabyggðar

Þá var Norræna aftur til umræðu á framboðsfundinum í gær. Að þessu sinni lék fundargestum hugur á að vita hvernig staðið hefði verið að kynningu hafna fyrir forsvarsmönnum Smyril-Line.

„Norræna óskaði eftir að koma með ferjuna til okkar með Eskifjörð sem stað númer eitt og Reyðarfjörð númer tvö. Við lögðum fram Fáskrúðsfjörð sem þriðja kost. Það voru lagðar fram grófar teikningar af því hvort kajarnir gætu tekið við ferjunni á fundi með stjórn Norrænu. Eftir það komu þeir með ósk um Eskifjörð."

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, sagði Norrænu málið eitt af þeim þar sem bæjarstjórnin hefði verið „mjög sammála. Það er sorglegt hvernig sú umræða hefur þróast. Málið er mjög einfalt," sagði hann og vísaði þar til þess að áhuginn hefði fyrst komið frá færeysku útgerðinni.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarmanna, sagði Fjarðabyggð ekki hafa sóst eftir Norrænu „að fyrra bragði. Þetta var mál sem kom okkur mjög á óvart og er okkur að mörgu leyti erfitt því við vitum að Norræna er lífæð nágranna okkar í norðri. „

Hann lýsti Smyril-Line sem „gerandanum" í málinu. „Fulltrúar þaðan voru búnir að skoða hafnaraðstöðu í Fjarðabyggð í fyrra án þess að við vissum að. Þeir eiga að leggja á borðið hvað þeir vilja ræða, við vitum það ekki á þessari stundu og við vitum ekki hvað verður úr málinu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.