„Það eru að detta af okkur allar skrautfjaðrirnar"

frambodsfundur fask 0028 webHeilbrigðis-, umhverfis- og skipulagsmál voru kjósendum á Fáskrúðsfirði ofarlega í huga á opnum framboðsfundi þar í gærkvöldi. Þeir lýstu meðal annars vonbrigðum sínum með að ekki væri læknir með fasta búsetu á staðnum og ótta við að sjúkrabifreið yrði tekin þaðan vegna niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Frambjóðendur hétu stuðningi sínum við baráttu Fáskrúðsfirðinga fyrir óbreyttu fyrirkomulagi sjúkrabifreiðarinnar. Þeir sögðu einnig frá því að illa gengi að fá lækna til starfa á landsbyggðinni en til stæði að auglýsa stöður hjá HSA á næstunni.

Frambjóðendur Fjarðalistans sögðust telja það rétt að færa heilsugæsluna til sveitarfélaganna en frambjóðendur B og D-lista töldu það frekar næsta skref á eftir málefnum eldri borgara, sem einnig voru til umræðu í gær.

Skólavegurinn handónýtur

Ástand Skólavegar var mörgum hugleikið í gærkvöld. „Hann er handónýtur, að verða illfær fyrri gamla, lága og lélega bíla eins og minn," sagði Esther Ösp Gunnarsdóttir, Fjarðalistanum sem uppalin er á Fáskrúðsfirði.

Undir þetta tók Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisanna. „Það er skelfilegt að sjá vegagerðina hér. Göturnar eru langverst farnar af öllum stöðum Fjarðabyggðar."

Mörg smámál verða að stórmálum

Þá bentu íbúar á fleiri umhverfismál eins og viðhaldi gangstétta, umhirðu opinna svæða og annað sem víkur að fegrun bæjarins. Þau kallaði Jens Garðar hins vegar „smotterísmál."

Einar Már Sigurðarson, Fjarðalistanum, varaði Jens við að vanmeta þau. „Það er óvarlegt að tala um þau sem smotterísmál. Þegar þessu mörg litlu smámál koma saman er þetta óvart orðið alltof mikið stórmál. Við megum ekki gleyma þessum litlu málum. Þau eru að pirra fólk að óþörfu."

Eiður Ragnarsson, Framsóknarflokki, sagði að til stæði að vinna gatnagerð og vatnsveitu saman til að einfalda verkið. Reiknað er með að í þá vinnu verði ráðist á næstu þremur árum.

Gengu á dyr af óánægju með fundarstjóra

„Það eru að detta af okkur allar skrautfjaðrirnar, pósthúsið, bankinn og nú á að taka af okkur sjúkrabílinn. Við erum orðin jaðarbyggð eins og skítugu börnin hennar Evu. Ætlið þið að setja ykkur inn í málin, hvernig húseignirnar okkar hrapa í verði?" spurði einn fundargesta.

Tveir fundargestir gengu úr húsi af óánægju með fundarstjórn en fundarstjóri meinaði gestum úr sal að stíga í pontu og takmarkaði tíma þeirra til athugasemda en krafðist þess í stað að menn bæru fram hnitmiðaðar spurningar.

„Við erum að missa fólk upp í Egilsstaði"

Þá voru frambjóðendur einnig spurðir að því hvort þeir hefðu íhugað að minnka skattlagningu í ákveðnum byggðarkjörnum til að stýra því hvar menn settust að innan sveitarfélagsins.

Jens Garðar sagði það ekki í hans „eðli sem sjálfstæðismanns" að stýra búsetuvali fólks með slíkum hætti. Hann lýsti þó yfir áhyggjum sínum af því hversu erfitt væri að ráðast í nýbyggingar. „Við erum jafnvel að missa fólk upp í Egilsstaði því það er húsnæðisskortur hér."

Fannst frábært að vera á Stöðvarfirði en vill ekki búa þar

Pálína Margeirsdóttir, Framsóknarflokki, sem býr nú á Reyðarfirði eftir að hafa áður verið á Fáskrúðsfirði líkt og Esther, sagði þróunina hafa verið erfiða.

„Það er sárt að búa á svona stað eins og Fáskrúðsfirði og horfa upp á allt fara frá manni. Ég hef samt enga töfralausn. Hvað fyndist öðrum íbúum í Fjarðabyggð ef við færum að slá af fyrir Stöðvarfjörð? Hvað erum við þá að gera fyrir fólkið sem býr þar?

Ég starfaði sem póstur á Stöðvarfirði í mánuð í fyrrasumar. Mér fannst frábært að vera þar en ég myndi ekki vilja búa þar," sagði Pálína og lýsti upplifun sinni af náttúru staðarins og hvernig hann hefði fyllst af ferðamönnum yfir sumarið.

„En ferðafólkið kemur ekki með börn inn í skólana okkar. Þetta er verkefni fyrir okkur öll."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.