Þungaflutningar samræmast vart fjölskylduvænum miðbæ

hafnargata 6 rfj 0003 webÚrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála hefur til meðferðar kæru þriggja íbúa á Reyðarfirði út af starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands í miðbæ staðarins. Íbúarnir telja starfsleyfið ekki samræmast gildandi aðalskipulagi.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) gaf í nóvember út starfsleyfi fyrir „flutning, geymslu og flokkun á forflokkuðum aukaafurðum" til ársins 2021 að Hafnargötu 6, þar sem BM Vallá var áður.

Fyrir ofan húsið er verslunar- og þjónustukjarninn Molinn og samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar er svæðið skilgreint sem „miðbær Reyðarfjarðar og jafnframt aðal verslunar- og þjónustukjarni Fjarðabyggðar." Þar er gert ráð fyrir að verði hótel, skrifstofur, verslanir og veitingastaðir.

Því telja Ásmundur Ásmundsson, Ragnar Sigurðsson og Samúel Karl Sigurðsson, sem standa að baki kærunni, að starfsemi Gámaþjónustunnar samræmist ekki markmiðum skipulagsins.

„Vart þarf að eyða mörgum orðum í að þungaflutningar sem umræddri starfsemi fylgir og starfsemin sjálf samræmist ekki fjölskylduvænu miðbæjarskipulagi enda nægar lóðir fyrir iðnaðarsvæði, hvort sem um er að ræða innan Reyðarfjarðar eða á iðnaðarsvæði ALCOA Fjarðaáls þaðan sem úrganginum er ekið með tilheyrandi umferðarþunga og umhverfisskaða," segir í kærunni.

Á svæði Gámaþjónustunnar er meðal annars unnið með afurðir frá álveri Fjarðaáls. Í kærunni er rifjað upp að þegar álverið hafi verið undirbúið hafi það verið stefna fyrirtækisins og bæjaryfirvalda að sú starfsemi sem tengdist álverinu yrði á athafnasvæði í nágrenni þess.

Deiliskipulagið mun eldra en aðalskipulagið

Kæran byggist á tveimur þáttum. Annars vegar að upphaflegt starfsleyfi Gámaþjónustunnar árið 2011 hafi ekki verið auglýst þannig þeim gæfist kostur á að gera athugasemdir við það.

Í öðru lagi að starfsemin sé í trássi við aðalskipulag Fjarðabyggðar sem gert var 2007. Deiliskipulag svæðisins er hins vegar frá árinu 1999 en þar er svæðið ætlað undir atvinnuhúsnæði, til dæmis iðnað, fiskvinnslu eða brigðarstöðvar. Á grundvelli þess mun starfsleyfið hafa verið gefið út.

„Undirritaðir vilja því meina að þar sem yfirlýsingar embættismanna Fjarðabyggðar, aðalskipulagið og loforð um staðsetningu iðnaðar tengdum álverinu ganga í berhögg við deiliskipulagið sé það í raun úrelt og ógilt og aðalskipulagið sé það sem fara skuli eftir."

Máli sínu til stuðnings er vísað í tölvupóst frá mannvirkjastjóra árið 2011 þar sem segir að niðurstaða umfjöllunar sveitarfélagsins sé sú að það sé „á móti því að Gámaþjónustan fá að útvíkka sína starfssemi á þessu svæði og teljum að þessi starfssemi eigi ekki heima í miðbæ Reyðarfjarðar/Fjarðabyggðar."

Flutningamiðstöð í næsta húsi?

Þremenningarnir segja jákvæðan árangur hafa náðst í uppbyggingu miðbæjarins með Molanum. Eftir að starfsemi Eimskips hafi flust frá Hafnargötu 5, sem er utan við Molann, hafi þungaflutningar og umferð stórra ökutækja í miðbænum dregist verulega saman.

Þar eru einnig blikur á lofti því Samskip hefur sótt um starfsleyfi flutningamiðstöð þar. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd lagðist gegn þeirri starfsemi þar sem hún samræmdist ekki aðalskipulagi.

HAUST hefur útbúið drög að starfsleyfi og sent þau til sveitarfélagsins og Samskipa. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar sagði Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST, að „leyfisvinnsla væri í gangi."

Aðspurð um viðbrögð við kærunni vegna Hafnargötu 6 sagði hún: „Það er rétt að fram hefur komið kæra vegna starfsleyfis sem HAUST gaf út vegna Hafnargötu 6. HAUST hefur auðvitað sent inn andmæli vegna kærunnar, en kæran er í vinnslu hjá úrskurðarnefnd og á meðan bíðum við bara róleg."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.