Viðbótarkvóti auglýstur á Djúpavogi: Engar raunhæfar mótvægisaðgerðir verið settar fram

djupivogur 280113 0018 webByggðastofnun hefur auglýst eftir samstarfsaðilum um nýtingu viðbótaraflaheimilda á Djúpavogi og Breiðdalsvík. Hreppsnefnd Djúpavogshrepps telur heimildirnar engan vegin nógu miklar til að mæta því höggi sem verður þegar vinnsla Vísis flyst af staðnum.

Sjávarútvegsráðherra úthlutaði í síðustu viku 400 þorskígildistonnum til Djúpavogs og 150 tonnum til Breiðdalsvíkur af 1100 tonna viðbótarafla á næsta fiskveiðiári. Aflaheimildunum er veitt til byggðarlaga í „alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi."

Gert er ráð fyrir að heimamenn leggi fram aflaheimildir á móti til að hægt verði að byggja upp atvinnustarfsemi í kring.

Byggðastofnun auglýsti í gær eftir samstarfsaðilum um nýtingu kvótans. Val þeirra byggir meðal annars á: trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi, fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur, sem bestri nýtingu þeirra veiðiheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu, öflugri starfsemi til lengra tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina, jákvæðum áhrifum á önnur fyrirtæki og samfélagið og traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps segir hins vegar úthlutunina „víðsfjarri" þeim kröfum sem hún hafi gert. Til þessa hafa verið unnin 4000 tonn árlega þar á vegum Vísis.

„Ljóst er að ef viðbrögð stjórnvalda verða í samræmi við tillögu ráðherra og engar raunhæfar mótvægisaðgerðir verði settar fram, lýsir sveitarstjórn fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda gangi fyrirhugaðar aðgerðir Vísis hf. eftir í skjóli þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem byggðinni er ætlað að búa við," segir í bókun frá fundi sveitarstjórnar í síðustu viku.

Í samtali við Austurgluggann í síðustu viku sagði Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, að viðbótarkvótinn þangað væri jákvætt skref fyrir vinnsluna sem heimamenn hafa verið að stofnsetja í vetur.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.